139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

vinna við frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit að virðulegum forseta er annt um og vill efla virðingu þingsins. Það mál sem við erum núna með til umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er þannig unnið að það er útilokað að því verði lokið á þeim tíma sem talað er um. Ég tek undir hvert orð sem kom fram hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni áðan um þetta mál og hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni tek ég undir að þær alvarlegu athugasemdir sem nefndin fær inn á sitt borð núna gera okkur algerlega ókleift að vinna þetta mál á svo skömmum tíma.

Það er því einboðið, virðulegi forseti, að við hvetjum forseta til að beita sér fyrir því að þessu máli verði frestað. Undir þeirri gríðarlegu ólgu sem er á yfirborðinu, undir þeirri kraumandi óánægju sem allir hagsmunaaðilar tjá á fundum nefndarinnar, er sáttatónn í anda þeirrar víðtæku sáttar sem náðist í sáttanefndinni í fyrrahaust. (Forseti hringir.) Það er vilji til þess að vinna þetta mál áfram þannig að þjóðin hafi sem mestan hag af þessari auðlind í framtíðinni. Það er ekkert (Forseti hringir.) verklag á þingi að ætla að ana áfram með þetta mál með þeim vinnubrögðum sem hér á að bjóða upp á (Forseti hringir.) þegar þessi sáttatónn er ríkjandi og við eigum að nota okkur það og klára þetta mál (Forseti hringir.) næsta vetur.