139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

vinna við frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Mig langar til að vekja athygli á því að það frumvarp sem hefur tafið þingstörfin kom fram löngu eftir að framlagningarfrestur var úti. Þegar við horfum til þeirra markmiða sem voru uppi síðast þegar við gerðum meiri háttar breytingar á þingsköpunum var alltaf ætlunin að þinginu mundi ljúka í lok maí eða byrjun júní. Þetta frumvarp kom fram í lok maí. Við erum að feta okkur áfram í framkvæmd nýju þingskapanna á hverju ári núna og það má ekki verða að fordæmi að ríkisstjórnin komist upp með það tveimur mánuðum eftir að framlagningarfrestur er úti og einmitt þegar þingstörfum á að fara að ljúka að leggja fram umdeild mál og knýja síðan fram framlengingu á þingstörfunum langt inn í sumarið umfram það sem þingsköp gera ráð fyrir. Þá erum við komin aftur inn í gamla (Forseti hringir.) tímann og þá er megintilgangi þingskapalagabreytinganna fórnað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)