139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[12:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í svari hv. þm. Birgis Ármannssonar er vísað til þess að það sé sambærilegt ákvæði í lögum um embætti sérstaks saksóknara. Það er nú svo að enn sem komið er höfum við ekki fengið miklar upplýsingar um það rannsóknarferli eða þær rannsóknir sem eru í gangi hjá sérstökum saksóknara. Við vitum því ekki enn hversu oft þessu ákvæði hefur verið beitt, það mun væntanlega ekki koma í ljós fyrr en viðkomandi uppljóstrarar þurfa að bera vitni fyrir dómstólum um hugsanlega brot sem þeir hafa sjálfir framið. En leiða má líkur að því að ástæðan fyrir því að ákveðið er að ákæra þá ekki sé sú að rökstuddur grunur sé um að einhver annar hafi gerst brotlegri eða beri meginábyrgðina á viðkomandi broti og hafi kannski jafnvel þvingað starfsmenn sína til að fara gegn lögum og starfsmaður talið, þó að hann hafi vitað að svo væri, að hann hefði ekki val um annað. Við höfum svo sem heyrt að menn hafi fært rök fyrir því að þetta hafi ekki verið ábyrgð þeirra heldur yfirmanna þeirra.

Ég tel nauðsynlegt að við skoðum hvort það eigi að setja þetta almenna löggjöf og þetta varði ekki bara brot í opinberri stjórnsýslu eða brot á opinberum starfsskyldum heldur að ef menn brjóta lög í landinu sé þessi möguleiki fyrir ákæruvaldið og rannsóknaraðila að vega og meta hvort vitnisburður viðkomandi aðila skipti svo miklu máli að ástæða sé til að fella niður kæru eða ákæra viðkomandi ekki.

Ég vil nefna hér líka og spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta kæmi til greina varðandi t.d. brot á lögum um fiskveiðistjórn, því að við höfum haft miklar áhyggjur (Forseti hringir.) af brottkasti og þar er það þannig að sjómenn eru oft í þeirri aðstöðu (Forseti hringir.) að þeir hafa raunar enga möguleika á því, ef þeir vilja vinna áfram í (Forseti hringir.) greininni, að upplýsa um brot sem þeir sjálfir hafa framið.