139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

tillaga um rannsókn á Icesave.

[14:03]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna þess sem fram kom í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar vil ég taka það fram varðandi þá rannsókn sem hann fjallaði um í máli sínu, um aðkomu stjórnvalda að málefnum tengdum Icesave, að hún hefur ekki verið til efnislegrar umfjöllunar í allsherjarnefnd eins og hv. þingmanni er kunnugt um. Við höfum ekki náð að komast yfir tillöguna, hún liggur hins vegar fyrir hjá nefndinni eins og t.d. rannsókn á einkavæðingu bankanna. Það eru tvær tillögur til rannsóknar sem við höfum náð að komast í, þ.e. rannsóknin á aðdragandanum að hruni sparisjóðanna og Íbúðalánasjóði sem við afgreiddum fyrir áramót. Ég geri ráð fyrir því að taka tillögu hv. þingmanns til umfjöllunar í nefndinni á yfirstandandi þingi og haustmánuðum eins og tillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna.