139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

tillaga um rannsókn á Icesave.

[14:04]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður, formaður allsherjarnefndar, hyggst taka þetta mál til meðferðar í nefndinni. Tillagan er í sjálfu sér einföld; hún lýtur að því að ráðist verði í rannsókn á embættisfærslum og ákvörðunum íslenskra stjórnvalda og samskiptum þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðna hjá útibúum Landsbanka Íslands í Bretlandi og Hollandi. Öll gögn málsins liggja fyrir og tillögutextinn er algjörlega sambærilegur því sem kemur fram í lögum um rannsóknarnefnd Alþingis. Ég hef litið þannig á að standi vilji til þess innan þingsins að ráðast í þessa rannsókn ætti ekki að taka langan tíma að afgreiða málið úr nefnd og til atkvæðagreiðslu í þinginu. Ég hef hins vegar skynjað það hjá öðrum en hv. þm. Róbert Marshall, og lít ég þá frekar á bekki hæstv. ráðherra, að takmarkaður áhugi er á því (Forseti hringir.) af einhverjum ástæðum að í þessa rannsókn verði farið.