139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[14:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir yfirferðina og fagna sérstaklega þeim áherslum sem hann lagði og ítrekaði; annars vegar að fé úr þessum sjóði yrði ekki notað til vöktunar og hins vegar að það yrði ekki notað til rekstrar. Ég fagna því alveg sérstaklega að féð sé nýtt til uppbyggingar á ferðamannastöðum um landið.

Við vonumst til að hingað komi aukinn fjöldi ferðamanna og að við munum hafa af því tekjur. Við höfum verið mjög feimin við að taka gjald af ferðamönnum, þó að menn geti svo sem haft skiptar skoðanir á því hvort eðlilegt sé að gera það með því að taka gistináttagjald til þess að byggja upp ferðamannastaði, en látum það vera. Ég sé að mjög margir aðilar sem fjalla um þessi mál og hafa umsjón með þeim hafa verið boðaðir á fundi nefndarinnar. Því langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort einhver umræða hafi verið um það, því að mér finnst að við þurfum að taka þá umræðu, hvort við eigum að selja sérstaklega inn á ferðamannastaðina til að byggja þá upp. Ef þeir fara allir í niðurníðslu getur það komið aldeilis í bakið á okkur og þá verður ekkert til að skoða og jafnvel er búið að eyðileggja suma staði.

Því langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þm. Kristjáns L. Möllers hvort það hafi verið rætt sérstaklega í nefndinni að taka einhvers konar gjald inn á ákveðna ferðamannastaði og það nýtt til að byggja þá upp og varðveita. Það mundi gera okkur í stakk búin til að taka við öllum þeim ferðamönnum sem við væntum að komi til landsins og við munum hafa tekjur af. Ég kalla sérstaklega eftir því sjónarmiði hjá hv. þingmanni.