139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[14:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör og ítreka það og fagna því sem rætt var sérstaklega og mikil samstaða var um í nefndinni, að gjaldið færi ekki í það að greiða fyrir vöktun eða fyrir rekstur því að þá væri nú hætt við því að það færi allt í hann.

Hv. þingmaður sagði að það hefði töluvert verið rætt í nefndinni. Ég þekki þessi mál sjálfur frá heimaslóðum mínum en þar gerði hópur fólks átak í varðveislumálum undir styrkri leiðsögn hins góða manns Árna Stefánssonar augnlæknis, sem er mikill náttúruunnandi og hefur látið sig varðveislu hella mikið varða. Í fyrra og hittiðfyrra var gert varðveisluátak í Vatnshelli, sem er þekktur og mjög merkilegur staður á utanverðu Snæfellsnesi. Hellirinn lá undir skemmdum af því að menn tóku þaðan brotin sem eru séreinkenni hellisins. Gerður var greiðfær aðgangur að svæðinu til að hægt væri að komast þangað og ef maður ætlar að fara niður og skoða hellinn í dag verður maður að hafa leiðsögn, fá hjálma og þar fram eftir götunum, ekki síst til þess að vernda.

Merkilegast þótti mér, sem ég hafði reyndar sjálfur efasemdir um fyrir fram, að af öllum þeim hundruðum manna sem heimsóttu hellinn, hvort sem það voru íslenskir eða erlendir ferðamenn, og þurftu að greiða gjald fyrir að fara niður til þess að standa undir rekstrinum, var ekki einn einasti maður sem gerði athugasemdir við að þurfa að borga fyrir að skoða hellinn. Fólk gerði sér grein fyrir því að það var ákveðið öryggisatriði og ekki síður að verið væri að vernda þá náttúruperlu sem þarna er. Ég held að það sé mál sem við þurfum að ræða betur í þingsölum.