139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[14:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða um nefndarálit það sem liggur fyrir um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Ég tek fram að ég tel það vera mjög jákvætt mál. Það fjallar um að menn ætli að feta þá slóð að taka gjald af ferðamönnum sem koma til landsins. Ég hef stutt það í mörg ár og talið nauðsynlegt skref í þessum málum. Menn hafa talað um ákveðnar aðferðir í gjaldtöku, þ.e. að selja inn á einstaka staði eða að fara einhverja almenna leið eins og gert er í öðru frumvarpi sem reyndar er beintengt þessu því að tekjurnar koma af farþegagjaldinu og gistináttagjaldinu og renna til framkvæmdasjóðsins. Ég held að það sé miklu skynsamlegri leið að fara hina almennu leið en að setja upp hlið og að selja inn á hvern stað. Þrátt fyrir að við fáum sífellt fleiri ferðamenn til landsins og að innan örfárra ára sé útlit fyrir að hingað komi um milljón erlendir ferðamenn á ári eru það engu að síður tiltölulega fáir staðir sem hugsanlega gætu staðið undir því að setja upp slíkt apparat, þ.e. að selja inn á hvern stað. Ég óttast að það gjald muni annars vegar falla meira og minna í sjálft sig og hins vegar muni örfáir staðir taka gjald fyrir að skoða eða upplifa náttúruna og annað. Það mundi þar af leiðandi ekki fara til annars.

Ég held því að þetta sé miklu skynsamari leið. Þó að það sé auðvitað skattlagning og geti verið flókin aðgerð þurfum við að finna þær leiðir sem eru einfaldastar í þessu sambandi. Síðan er það augljóst að þegar það stefnir í að það komi kannski 600 þúsund manns til landsins á þessu ári að það þarf ekki háar fjárhæðir, t.d. gistináttagjald og farþegagjald, til þess að allmiklir fjármunir fari í Framkvæmdasjóðinn og í aðra hluti eins og þjóðgarða og friðlýst svæði. Það er mjög mikilvægt að við stefnum að því að byggja hér upp. Eins og fram kemur í nefndarálitinu er mjög mikilvægt að fjármagninu sé ætlað að byggja upp og vernda náttúru landsins og reyndar öryggi ferðamanna líka m.a. til þess að draga úr álagi á þessa fjölsóttustu staði, stýra því með einhverjum hætti, byggja upp fleiri staði, að því fyrst og fremst varið til uppbyggingar en ekki til rekstrar.

Það er ákaflega mikilvægt sem fram kom hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller, formanni hv. iðnaðarnefndar, að friðlýst svæði á Íslandi eru 102 og inn á náttúruverndaráætlun og friðlýsingar eru ævinlega sett 10, 15 og jafnvel 20 svæði á landinu. Á síðustu árum hefur í raun verið stigvaxandi mótþrói heimamanna, þeirra sem eiga það land eða viðkomandi sveitarstjórna, við því að ákveðið svæði fari inn á náttúruverndaráætlun og verði friðlýst. Markmiðin með friðlýsingunni og því að setja svæði inn á náttúruverndaráætlun eru ævinlega þau að það eigi að auðvelda aðgengi að þessum svæðum og vernda náttúruna og þess háttar, en svo fylgja aldrei neinir fjármunir þeim friðlýsingum. Það hefur haft þau áhrif að menn eru ekkert mjög ginnkeyptir fyrir því að fjölga þessum svæðum.

Gefin var út skýrsla um málið. Það má líka nefna að margt bendir til þess að það séu fjölmörg svæði á landinu sem eru komin að þanmörkum og jafnvel komin yfir þau mörk og að það kosti allnokkra fjármuni að byggja upp aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum og eins að byggja upp stíga og gera skilti og annað til þess að leiðbeina ferðamönnum og auðvitað líka til þess að tryggja öryggi þeirra.

Á einu af þessum friðlýstu svæðum, Dyrhólaey, sem menn hafa deilt talsvert um á liðnum árum og áratugum, má fullyrða að friðlýsingin hafi mistekist á margan hátt þar sem svæðið var fyrst og fremst lokað en ekki byggt upp sem eftirsóttur ferðamannastaður. Sem betur fer tókst sveitarfélaginu Mýrdalshreppi og Umhverfisstofnun þó að ná fram samningi eftir talsverða vinnu í vetur. Þar lagði sveitarfélagið fram fjármuni og eins Umhverfisstofnun, einar 3 milljónir. Það er auðvitað gott að kominn sé bakhjarl í slík verkefni sem víðast um land. Það er hins vegar galli við það mál, þ.e. Dyrhólaey, að ráðherrann hefur ekki staðfest samning um það svæði. Ég spurði hæstv. umhverfisráðherra fyrir um þremur vikum hverju það sætti. Ég heyrði fyrst í gær af því en hafði annars talið víst að hæstv. umhverfisráðherra mundi staðfesta samninginn undireins eða á næstu dögum, mér skildist það á máli hennar. Þess vegna er uppbyggingin því miður ekki komin á það stig sem hún ætti að vera á til þess að taka á móti þeim fjölda ferðamanna sem vill sækja Dyrhólaey heim í sumar eins og aðra staði.

Ég tel að í því felist möguleikar á að byggja upp fjölmarga friðlýsta staði og eins góða ferðamannastaði, náttúruperlur sem menn hafa haft takmarkaða möguleika til að heimsækja í dag þegar þessi sjóður verður að raunveruleika. Ég vænti þess að í framtíðinni þegar við hugum að því að byggja upp og létta álagi á ferðamannastöðum og af mjög fjölsóttum stöðum, að þarna séu komnir nýir möguleikar til uppbyggingar.

Ég býst líka við því að þetta opni augu okkar fyrir því við gerð náttúruverndaráætlana og friðlýsingu svæða að við setjum samhengi á milli þess sem við gerum þar og möguleikanna á því að byggja þar upp, að þeir fjármunir skili sér inn á svæðin þannig að í framtíðinni verði meiri sátt um þær aðgerðir sem við vinnum að hvað það varðar. Þess vegna þarf að vera samhengi í hlutunum, ein nefnd á ekki að fjalla um mál sem er algjörlega einangrað frá öðrum þáttum og ég tel að hér sé kominn möguleiki sem við höfum ekki haft fyrr, til að samspil verði á milli þeirra tekna sem skapast af ferðaþjónustunni og uppbyggingar og verndunar þeirra svæða sem við erum að byggja upp á landinu til að taka á móti auknum fjölda ferðamanna.

Ég ætla að enda mál mitt á því að lýsa yfir stuðningi við málið og tel að það sé eitt af þeim málum sem við þurfum að ljúka fyrir sumarfrí þannig að það geti tekið gildi sem fyrst og að þeir fjármunir — það áttu að koma inn tekjur síðustu fjóra mánuðina á þessu ári — muni þá skila sér til þeirra staða sem áætlað er á fjárlögum.