139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:28]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Þegar sá sem hér stendur hóf blaðamennsku fyrir liðlega 30 árum var meðal fyrstu frétta sem hann skrifaði tímamótafrétt um hundrað þúsundasta erlenda ferðamanninn, sem kom til landsins upp úr 1980, og þótti tíðindum sæta að slíkur fjöldi erlendra ferðamanna legði leið sína til Íslands.

Fjölgun erlendra ferðamanna á undanliðnum árum hefur verið gífurleg og nú má segja að þeim fjölgi um 10% á ári eða sem nemur um 50 þús. manns á þessu ári. Er hald manna að þeir geti jafnvel farið upp undir 600 þús. á ári.

Íslendingar þurfa að fara að spyrja sig þeirrar spurningar hvað Ísland geti tekið á móti mörgum erlendum ferðamönnum. Er Ísland í stakk búið til að taka á móti 1 milljón ferðamanna? Er Ísland í stakk búið til að taka á móti 2 milljónum ferðamanna? o.s.frv. Ef fram heldur sem horfir mun fjöldi erlendra ferðamanna árið 2020 verða a.m.k. 1 milljón manna. Getum við tekið á móti slíkum fjölda? Það er spurningin sem þetta frumvarp hverfist að nokkru leyti um, hvernig við eigum að geta tekið á móti þessum aukna fjölda.

Sá sem hér stendur hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að dreifa ferðamönnum betur yfir árið og betur yfir landið, og rækta fleiri hlið landsins, svo sem eins og þá flugvelli sem við höfum fjárfest í fyrir norðan, austan og sunnan og þegar þar að kemur fyrir vestan, til að taka á móti þessum aukna fjölda ferðamanna og dreifa þeim betur ekki bara yfir landið heldur líka yfir árið. Ein af stærstu lausnum þessa máls er held ég einmitt þessi dreifing betur yfir landið og betur yfir árið. Við sjáum það á mörgum ferðamannastöðum á suðvesturhorninu að þeir eru orðnir allt of ásetnir, við sjáum það líka af ferðamannatölum sem byggðar eru á rannsóknum þar til bærra aðila að þeir ferðamenn erlendir sem lenda t.d. í Leifsstöð, að af sjö af hverjum átta nóttum, að ég held, gista þeir á stöðum sem eru næstir þeim flugvelli, þannig að dreifing erlendra ferðamanna mun ekki takast nema við dreifum þeim betur á þá áfangastaði sem úr er að spila hringinn í kringum landið. Þetta hafa aðrar þjóðir gert á undanförnum árum og má þar nefna Finna sem hafa tekið ákveðna forustu í því að dreifa erlendum ferðamönnum betur yfir landið og betur yfir árið, og eins má nefna Norðmenn sem hafa lagt gríðarlega mikla áherslu á að markaðssetja flugvelli fyrir utan Ósló á undanförnum árum og nægir þar að nefna flugvöllinn í Björgvin sem hefur náð að hasla sér völl sem innanlandsflugvöllur í mjög ríkum mæli á undanliðnum árum.

Herra forseti. Ég nefni þetta vegna þess að þetta er snar liður í því að taka á betri umgengni erlendra ferðamanna um landið og getur verið liður í því að varðveita þær náttúrugersemar sem við eigum víða um land og erlendir jafnt sem innlendir ferðamenn kjósa að sækja heim.

Herra forseti. Ég vil hins vegar ljúka lofsorði á vinnu iðnaðarnefndar við gerð þessa frumvarps um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þar sem lagt er til að tekið verði upp nýtt gjald sem innheimt er af seldum gistinóttum og farþegum með flugvélum og farþegaskipum. Ég er mikill talsmaður þessa frumvarps, tel eðlilegt að við skattleggjum að einhverju leyti þá sem koma hingað til lands og njóta landsins til að byggja upp okkar ferðamannastaði. Það er í sjálfu sér óréttlátt að sá skattur komi af öðrum en þeim sem nota staðina. Þetta er notendaskattur og er á margan hátt mjög eðlilegur og í takt við það sem gerist og hefur gerst í æ ríkari mæli í löndunum í kringum okkur.

Ég er sérlega ánægður með það sem nefndarmenn lögðu áherslu á að þessar tekjur fari til uppbyggingar á ferðamannastöðum en ekki til reksturs og ekki til vöktunar, þeir peningar eiga að koma af öðrum stofnum. Hér er fyrst og fremst verið að leggja upp í leiðangur til að bæta aðgengi, útlit og innri gerð margra helstu ferðamannastaða landsins sem eru farnir að líða mjög fyrr það takmarkaða fjármagn sem úr er að spila til endurbóta á þessum stöðum.

Ég vil þakka formanni iðnaðarnefndar fyrir framlag hans til þeirrar sáttar sem náðist í nefndinni svo og öðrum nefndarmönnum sem lögðu inn margar hugmyndir til bóta við gerð þessa frumvarps sem að mínu viti er til heilla og bóta fyrir þann merka geira íslensks viðskiptalífs sem ferðaþjónustan er.