139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á að það væri mjög mikilvægt að dreifa ferðamönnum betur um landið, eins og hv. þingmaður orðaði það. Það kemur reyndar fram í þeirri ferðamálaáætlun sem samþykktum hér fyrir stuttu.

Nú vill svo til að hv. þingmaður á sæti í samgöngunefnd ásamt mér, og fleiri hv. þingmönnum að sjálfsögðu. Þess vegna langar mig að spyrja hann um eitt atriði sem mér finnst mjög mikilvægt að verði skoðað við endurskoðun á samgönguáætlun í haust, svokallaða Uxahryggjaleið. Nú er búið að klára hana í Suðurkjördæmi, það er komið að mörkum Norðvesturkjördæmis, gamla Vesturlandskjördæmis, búið að leggja þangað fínan veg og flottan sem á reyndar eftir að malbika en síðan liggur nánast óakfær vegur, bara jeppafær, niður í Lundarreykjadalinn. Þetta stendur ferðaþjónustu í uppsveitum Borgarfjarðar mikið fyrir þrifum. Þarna eru mjög miklir möguleikar til að taka þennan hringveg og laga hann, ekki síst í ljósi þess að við erum að ræða um að tvöfalda stofnbrautirnar, Vesturlandsveg, Suðurlandsveg og Reykjanesbraut. Þegar ég tala um Vesturlandsveg er ég jafnvel að tala um að byggja önnur Hvalfjarðargöng. Þessi framkvæmd gæti til að mynda létt á umferðinni um Vesturlandsveg og í gegnum Hvalfjörðinn því að fólk á það til að snúa bara við. Það fer í staðinn yfir á Þingvöll, þetta er mjög stuttur kafli sem er eiginlega bara troðningur eins og ég sagði og ekki fólksbílafær heldur bara jeppafær en það væri mjög mikilvægt að fara í uppbyggingu á þessum vegi til að styrkja ferðaþjónustuna í uppsveitum Borgarfjarðar, til að mynda í Fossatúni, (Forseti hringir.) og til að styrkja líka þá möguleika sem þessir aðilar hafa og þá ekki síst til að dreifa ferðamönnunum um landið.