139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum ekki alveg sammála um þessa keldu sem hann kallaði svo í kringum Blönduós en ég ætla nú ekki að ræða það í þessu stutta andsvari mínu. Ég fagna því hins vegar að hann taki undir sjónarmið mitt um mikilvægi þess að byggja upp Uxahryggjaleiðina alla leið. Eins og ég færði rök fyrir og hv. þingmaður tók undir getur það létt á umferð á öðrum vegum sem menn eru að tala um að tvöfalda. Fyrir margfalt minni peninga væri þá nær að létta á þessum leiðum og ná á sama tíma fram þeim markmiðum að dreifa ferðamönnunum frekar um landið eins og kemur fram í þingsályktuninni um ferðamálaáætlunina.

Ég tek líka undir og þakka þakkir hv. þingmanns til hv. iðnaðarnefndar fyrir það hvernig hún hefur staðið að málum í þessu máli og eins við þær breytingar sem voru gerðar með þingsályktunartillögunni um ferðamálaáætlun. Þegar mælt var fyrir henni vakti sérstaklega athygli mína að ekkert var minnst á samgönguþáttinn til uppbyggingar í ferðaþjónustu. Iðnaðarnefnd gerði breytingu á þingsályktunartillögunni og hnykkti sérstaklega á með breytingartillögu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Samgöngur eru mikilvægasta forsenda allrar ferðaþjónustu á Íslandi og mikilvægt að við áætlanagerð og framkvæmdir í tengslum við samgöngumál verði tekið tillit til hagsmuna ferðaþjónustunnar.“

Þetta var gríðarlega mikil breyting og þakka ber hv. iðnaðarnefnd og forustumönnum hennar fyrir að hafa verið á varðbergi. Það kemur svo sem ekki á óvart þegar fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra stýrir þar málum að þetta skuli vera gert. Þetta er gríðarlega mikilvægt og getur orðið til þess, eins og við hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson verðum algjörlega sammála um, að til þessara mála verði sérstaklega horft þegar menn fara í vegaframkvæmdir.