139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:49]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ástæða til að vekja athygli á því að einmitt í nýrri ferðamannaáætlun er gert ráð fyrir að lengja ferðamannatímabilið um land allt og það er mjög til bóta hvernig sú áætlun hefur verið unnin á síðustu metrunum í þágu alls landsins.

Það er í mörg horn að líta í þessu efni. Ég vil deila þeirri hugmynd með hæstv. ráðherra um betri nýtingu á þeim fjármunum sem við höfum varið í samgöngumannvirki hér á landi. Ég nefni t.d. sérstaklega Akureyrarflugvöll, ég get nefnt líka Egilsstaðaflugvöll, sem eru hvorir tveggja löglegir varaflugvellir á Íslandi fyrir Keflavíkurflugvöll og eru útbúnir þeim búnaði sem við er að etja í þeim efnum. Það má vel hugsa sér þá leið að þeir búi við lægri lendingargjöld en t.d. Keflavíkurflugvöllur sem er þyngri í rekstri en t.d. Akureyrarflugvöllur. Með þeim hætti sé hægt að beina aukningu ferðamanna í æ ríkari mæli betur yfir landið. Þetta er ein leið sem þarf að skoða og vísa til ESA ef út í það er farið til að athuga hvort við séum í færum til að fara þá leið.

En það má vel nota skattkerfið, álögur og annað slíkt til að beina umferðinni þangað sem hún nýtist ferðaþjónustunni best og landinu öllu. Í því efni verðum við náttúrlega að horfa til þess að búið er að fjárfesta gríðarlega í ferðaþjónustunni hringinn í kringum landið og við erum að vannýta þær fjárfestingar lungann úr árinu vegna þess að við höfum ákveðið, og það er stjórnvaldsákvörðun, að beina (Forseti hringir.) flugumferðinni inn um eitt gat. 97,7% útlendinga (Forseti hringir.) koma í gegnum Leifsstöð, aðrir koma annars staðar.