139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er rétt hjá hv. þingmanni að það er sárgrætilegt að Samfylkingin mæli fyrir höftum í verslun og viðskiptum. Eins er rétt hjá hv. þingmanni að það er grundvallaratriði í hinni evrópsku samvinnu að auka frelsi í verslun og viðskiptum vegna þess að með því að fella niður höft aukum við og eflum verslun og viðskipti og þar með hagvöxt og lífskjör á svæðinu öllu.

Það að hafa marga ólíka gjaldmiðla á Evrópska efnahagssvæðinu er hluti af þessum höftum og þess vegna ákjósanlegt að löndin sem á því eru sameinist um einn gjaldmiðil. En staðreyndin er sú að við verðum að horfast í augu við það að íslenska krónan er ekki í færum til að vera á opnum frjálsum markaði eins og sakir standa. Ég hygg að vinir okkar og frændþjóðir í Evrópu muni hafa skilning á því að hér þurfi vegna þess neyðarástands sem skapaðist að hafa tímabundnar skorður á þeim viðskiptum.