139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bið hv. þingmann um að misskilja ekki orð mín. Sannarlega er ég talsmaður aðildar að Evrópusambandinu eins og allur minn flokkur og þess að við verðum hluti að öðru og stærra myntsvæði. Ég tel engu að síður fyllilega mögulegt ef það er hin pólitíska niðurstaða hér að starfrækja áfram eigin gjaldmiðil þó að menn kunni að þurfa að vera viðbúnir meiri inngripum en þeir voru áður tilbúnir til í aðdraganda hrunsins, enda held ég að þær gríðarlegu sveiflur sem menn bjuggu þá við og þær miklu stöðutökur séu ekki neitt sem okkur langar aftur í.