139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að að svo miklu leyti sem við þurfum að byggja á krónunni hér á næstu missirum og árum kunni hún að eiga nokkuð inni. Ég held að hinir undirliggjandi þættir í íslenskum efnahag séu með þeim hætti að full ástæða sé til að hafa til þess nokkrar væntingar.

Ég er jafnsannfærður um að núna, þegar við erum að feta okkur út úr mestu erfiðleikunum og sjáum efnahagsuppbyggingu í ár, hagvöxt samkvæmt öllum spám á yfirstandandi ári, þurfum við um leið að gæta okkar á því að hafa ekki óraunhæfar væntingar um ávinning til skemmri tíma. Reynsla undangenginna ára á að hafa kennt okkur að í þessu efni er sígandi (Forseti hringir.) lukka best, það þarf að taka eitt skref í einu og rasa ekki um ráð fram.