139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef margoft lýst yfir héðan úr þessum ræðustóli er hv. þm. Helgi Hjörvar greindur og gegn maður og kemur oft auga á aðalatriði hlutanna. Ég er honum sammála í því að það er mjög æskilegt að hér á Alþingi fari fram umræða og ekki einungis um kosti og galla haftanna heldur um smáatriðin.

Ég tel hins vegar að við getum það án þess að þetta sé lögfest. Það er ljóst að Seðlabankanum voru gefnar mjög víðtækar heimildir haustið 2008 um gjaldeyrishöft og við sjáum hvernig þessar smásmugulegu greinar hafa smám saman verið að herðast. En ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni í því að nákvæmlega þetta atriði leiði til þess að við þurfum að viðhalda höftum í tæp átta ár.