139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir mjög góða ræðu og greinargóða. Ég deili áhyggjum hans um að þessi gjaldeyrishöft, þessi lagasetning hafi áhrif á EES-samninginn og brot á honum sem ég lýsti í andsvari áðan.

Það kemur fram í frumvarpinu að aflandskrónurnar séu að miklu leyti í eigu erlendra aðila og bundnar í innstæðum og ríkisverðbréfum. Áætlað er að þær nemi samtals um 465 milljörðum kr. en til samanburðar má nefna að sú upphæð er jafnhá og fjárlög íslenska ríkisins voru árið 2011. Síðan kemur fram í frumvarpinu, í viðauka IV, með leyfi forseta:

„Rétt er þó að hafa í huga að á bak við hluta innstæðna erlendra banka og krónuskuldabréfa í vörslu erlendra aðila kunna að standa innlendir endafjárfestar eða aflandsfélög í þeirra eigu.“

Sýnir þetta okkur ekki, hv. þingmaður, að það að tryggja allar innstæður í bönkunum voru hagstjórnarmistök?