139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan nemur þessi upphæð um 465 milljörðum kr. Það kemur hér fram að innstæður í fjármálastofnunum nema u.þ.b. 185 milljörðum, ef við sléttum þetta út segjum þá 200 milljörðum, og það er talið gefa góða vísbendingu um umfang aflandskrónueigna og ég var að efast hér um eignarhaldið áðan eins og ég fór yfir.

Þar sem málin standa svona og það eru ekki nema 60 milljarðar sem eru sem innstæður í Seðlabankanum, spyr ég: Getur þingmaðurinn gert sér í hugarlund hvers vegna þetta var sett með þessum hætti inn í nýju bankana þegar þeir voru stofnaðir, hvers vegna var akkúrat þessari upphæð dreift á bankana? Eins og kemur fram í frumvarpinu gæti það gerst, ef gjaldeyrishöftin yrðu ekki framlengd, að þetta mundi velta bönkunum þremur vegna þess að þessar innstæður dreifast nánast jafnt á Arion, Íslandsbanka og Landsbankann.