139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:21]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þrennt stendur eftir í þessari mikilvægu umræðu um afnám gjaldeyrishafta. Í fyrsta lagi: Stjórnarandstaðan hefur enga trú á íslensku krónunni. Í öðru lagi: Það getur tekið allt að 60 ár að afnema höftin. Í þriðja lagi: Við verðum ekki gengin í Evrópusambandið og búin að taka upp evru þegar áætlað er að afnámi gjaldeyrishaftanna ljúki samkvæmt frumvarpinu.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar er um margt ágætur og hefur verið um margt ágætur um galla krónunnar og ókosti gjaldeyrishafta. Það vantaði ekkert í málflutninginn nema yfirlýsingu um að taka upp evru. Það er hins vegar eitthvað dularfullt við þennan málflutning því að á sama tíma leggjast þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gegn því að við könnum í aðildarviðræðum við ESB hvort okkur bjóðist stuðningur Seðlabanka Evrópu og Evrópusambandsins sjálfs við að afnema höftin í skrefum þannig að Seðlabanki Evrópu standi að baki krónunni meðan við stígum þau mikilvægu skref að afnema höftin og komum þannig í veg fyrir fall krónunnar. (Forseti hringir.) Við eigum að standa saman um þetta.