139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir andsvarið sem var reyndar ekki andsvar heldur fyrst og fremst spurning varðandi þrýstinginn á krónuna. Jú, ég er sammála hv. þingmanni um að Seðlabankinn hafi alls ekki staðið sig í að meta þennan þrýsting. Þeir bera fyrir sig að það sé erfitt að vita hverjir hinir raunverulegu eigendur séu, m.a. vegna þess að aflandskrónurnar skipta oft um hendur, en það er að mínu mati ekki gild afsökun.

Þessi uppboðsmarkaðsleið er reyndar, ef ég man rétt, tillaga Framsóknarflokksins um hvernig eigi að afnema gjaldeyrishöftin — ég gleymdi því þegar ég talaði um ýmsar leiðir sem lagðar hafa verið til. Það var sem sagt Framsóknarflokkurinn sem lagði fyrst til uppboðsmarkaðsleiðina sem Seðlabankinn er reyndar að fara núna þó svo að ég haldi að Framsókn hafi lagt til að hún yrði mun umfangsmeiri en Seðlabankinn ætlar að hafa hana. Ég er í sjálfu sér ekki ósátt við þá leið en hef hvatt Seðlabankann m.a. til þess að beita líka skattlagningu á þessum uppboðsmarkaði. Það er hægt að blanda sama skattlagningarleiðinni og uppboðsmarkaðsleiðinni með því að taka skatt af þeim viðskiptum sem fara fram á markaðnum. Þá er verið að tempra aðeins áhuga þeirra sem vilja fara út úr hagkerfinu og jafnframt að afla ríkinu tekna. Ég lít svo á að það sé eitt meginverkefni okkar í efnahags- og skattanefnd að finna nýja tekjustofna fyrir ríkissjóð.