139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur kærlega fyrir. Varðandi skilgreiningu á aflandskrónum eru þær taldar vera krónueignir erlendra aðila, en í frumvarpinu kemur fram að ekki sé ljóst hvort sú skilgreining sé með þeim hætti vegna þess að rétt sé að hafa í huga að á bak við hluta innstæðna erlendra banka og krónuskuldabréfa í vörslu erlendra aðila kunni að standa innlendir endafjárfestar eða aflandsfélög í eigu þeirra.

Það vekur upp spurningar um hvers vegna ríkisstjórnin bregst við með þessum hætti og lætur dýrmætt tækifæri renna sér úr greipum, eins og tillögu þingmannsins um að finna nýjan skattstofn með því að setja allt að 80% skatt á gjaldeyrinn þegar hann fer úr landi. Hvers vegna telur þingmaðurinn að ríkisstjórnin hafi ekki farið þá leið? Er það jafnvel tengt eignarhaldinu?

Það kemur hér fram að innstæður í bönkunum, Arion banka, Landsbankanum og Íslandsbanka, nemi 185 milljörðum kr. Telur þingmaðurinn að það hafi verið mistök að tryggja allar innstæður að hámarki en ekki bara 3 milljónir kr. per kennitölu per bankareikning eins og Evróputilskipunin sagði til um? Íslenska ríkið stendur nú frammi fyrir því að þurfa að bæta tæpa 200 milljarða kr. vegna innstæðna þessara erlendu aðila í bönkunum.

Þetta er fyrra andsvarið. Svo ætla ég að fara yfir Seðlabankann og það sem gerðist í dag í seinna andsvari.