139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni að þetta væri frekar lág upphæð og tekur í raun undir gagnrýni forstjóra Kauphallarinnar um að þetta þurfi að vera markvissara. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hún telji hægt að draga stórar ályktanir af þessu litla uppboði, hvort þetta sýni okkur nægjanlega þá mynd sem við erum að reyna að sjá til að meta þann þrýsting sem er á krónunni.

Síðan sagði hv. þingmaður í ræðu sinni að það væri hugsanlegt að menn gætu tekið upp evruna til að friða Samfylkinguna. Það er kannski ósanngjarnt í svona stuttu andsvari að spyrja, en hver er skoðun hv. þingmanns á því að taka hugsanlega upp annan gjaldmiðil? Á undanförnum dögum hefur til að mynda verið umræða um kanadadollar. Hverja telur hv. þingmaður líkurnar á því að jafnraunhæft sé að taka upp annan gjaldmiðil og taka upp evruna?