139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Í ljósi þess andsvars sem ég átti við hv. þm. Lilju Mósesdóttur þar sem ég kvartaði yfir því að stjórnarliða vantaði á mælendaskrá tel ég rétt að nefna hér að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur kvatt sér hljóðs í þessari umræðu og ég fagna því. Við stjórnarandstæðingar höfum verið því vanir að ræða dálítið einir um undirstöðumál á lokadögum þingsins en það verður fróðlegt að heyra sjónarmið hv. þingmanns eins og við höfum heyrt sjónarmið hv. formanns nefndarinnar, Helga Hjörvars.

Í annan stað, svo maður byrji á uppbyggilegum nótum í þessari umræðu, er ánægjulegt að vera að ræða þetta mál einungis korter yfir sex að kvöldi því að þegar gjaldeyrishöftin voru sett á sínum tíma, þann 28. nóvember árið 2008, tók ég til máls klukkan 03:37 að nóttu til. Mun ég aðeins fara yfir þá umræðu sem þá var sett á, en vil þó áður en ég geri grein fyrir nefndaráliti mínu minna á að lögin sem sett voru þá, árið 2008, áttu að gilda í mesta lagi til 30. nóvember árið 2010. Nú er árið 2011 runnið upp eins og allir þekkja og nú hefur heldur betur verið lengt í þessari áætlun ríkisstjórnarinnar. Það á að stefna að því að afnema gjaldeyrishöftin þann 31. desember árið 2015. Ég ætla að gera grein fyrir því á eftir hvers vegna mér finnst þessi framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar óboðleg og að við verðum að gera allt til þess að hrinda af stað þeirri stefnubreytingu að fallið verði frá þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett.

Ég ætla núna, með leyfi frú forseta, að gera grein fyrir nefndaráliti frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar sem er sá einstaklingur sem hér stendur.

Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði reglur um gjaldeyrismál sem Seðlabanki Íslands hefur sett á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða I í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Ríkisstjórnin hefur að tillögu Seðlabanka Íslands samþykkt áætlun um afnám gjaldeyrishafta og er í frumvarpinu lagt til, í samræmi við áætlunina, að höftum verði viðhaldið til 31. desember 2015 en þá er gert ráð fyrir að öllum gjaldeyrishöftum verði aflétt.

Þegar lög nr. 134/2008 voru samþykkt 28. nóvember 2008 var Seðlabanka Íslands veitt tímabundin heimild til að setja reglur til að takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipta vegna þeirra. Var það gert til að koma á og tryggja stöðugleika á gengi íslensku krónunnar en áætlað var að höftin yrðu tímabundin. Í athugasemdum við það frumvarp er skýrt tekið fram að stefnt sé að því að afnema gjaldeyrishöftin svo fljótt sem auðið er og í þingræðum um málið kemur fram sú skoðun þingmanna að grundvallarforsenda fyrir samþykki gjaldeyrishafta væri sú að þau yrðu eingöngu tímabundin. Staðan hefur breyst og að mati 2. minni hluta er nauðsynlegt að unnið verði að því að afnema gjaldeyrishöftin en þau ekki fest í sessi. Að auki bendir 2. minni hluti á að áætlunin sem frumvarpið byggist á er ekki tímasett að öðru leyti en því sem fram kemur, þ.e. að höftum verði viðhaldið til 31. desember 2015. 2. minni hluti telur algjörlega nauðsynlegt að áætlun um afnám gjaldeyrishafta sé nánar tímasett með skýrum viðmiðum þannig að unnt sé að vinna skipulega að áætluninni og auka þannig trúverðugleika peningastefnu ríkisstjórnarinnar. Með þessu frumvarpi eru hins vegar send röng skilaboð þar sem reglur Seðlabanka Íslands eru lögfestar. 2. minni hluti telur að aðrar leiðir og aðferðir séu heppilegri og ekki jafníþyngjandi í áætlun um afnám gjaldeyrishafta.

Það er skoðun 2. minni hluta að áætlun Seðlabanka Íslands um afnám gjaldeyrishafta og frumvarpið í heild hvíli á veikum stoðum. Áframhaldandi gjaldeyrishöft setja miklar skorður við athafnafrelsi bæði einstaklinga og lögaðila. Ákvæði frumvarpsins koma þannig í veg fyrir að einstaklingar og lögaðilar geti framkvæmt aðgerðir sem nauðsynlegar eru í heilbrigðu efnahagslífi og mikilvægar til þess að fjármálamarkaðurinn verði virkur á ný eftir hrun bankakerfisins. Með áframhaldandi gjaldeyrishöftum er komið í veg fyrir erlenda fjárfestingu, hagvöxtur minnkar og atvinnuleysi eykst. 2. minni hluti harmar þá ákvörðun að festa í sessi reglur sem koma í veg fyrir endurreisn efnahagskerfisins, auka á atvinnuleysi — sem nú þegar er of mikið — og benda til þess að ríkisstjórnin hafi gefist upp fyrir því verkefni að aflétta gjaldeyrishöftum. Þau gjaldeyrishöft sem nú þegar eru í gildi hafa í för með sér skort á erlendu fjármagni sem aftur leiðir til þess að geta til að fjárfesta í gjaldeyrisskapandi greinum, svo sem ferðaþjónustu, orkuvinnslu og iðnaði, er skert. Í þessum greinum er ekki að finna ónýtta afkastagetu, frekari fjárfestinga er þannig þörf svo unnt sé að auka framleiðslu. Enn fremur bendir 2. minni hluti á að með því að lögfesta reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrishöft verður enn erfiðara en ella fyrir stjórnvöld að aflétta þeim höftum á sveigjanlegan og þægilegan hátt. Að sama skapi finna menn ávallt einhverjar glufur í þeim reglum sem gilda og er iðulega brugðist við því með því að herða tökin og setja strangari reglur. Áframhaldandi gjaldeyrishöft kalla því á strangari gjaldeyrishöft og ekki er ljóst hvenær áætlað verður að fella þau úr gildi.

Í 3. gr. d eru talin upp þau skilyrði sem einstaklingur þarf að uppfylla til að geta tekið út erlendan gjaldeyri í reiðufé. Kemur þar meðal annars fram að sá sem kaupir gjaldeyrinn þarf að sýna fram á fyrirhugaða ferð með framvísun farmiða eða kvittunar fyrir greiðslu á ferð sinni, hann þarf að vera eigandi þeirra fjármuna sem greiddir eru fyrir erlenda gjaldeyrinn og þar að auki þarf sá einstaklingur sem kaupir gjaldeyrinn að fara sjálfur með féð úr landi. 2. minni hluti bendir á hversu óraunhæfar þessar reglur geta verið í reynd. Oft er börnum eða barnabörnum gefinn gjaldeyrir til að nota í utanlandsferð. Við þær aðstæður getur verið ómögulegt fyrir fullorðna einstaklinginn að kaupa gjaldeyri í gjöf fyrir barnið. Þar að auki hafa fjármálafyrirtæki enga burði til að hafa eftirlit með þessum skilyrðum og þá sérstaklega því sem fram kemur í 4. tölul. 2. mgr., þ.e. að einstaklingurinn sem kaupir gjaldeyrinn fari sjálfur með hann úr landi.

Svo ég aðeins víki út frá nefndarálitinu vil ég taka fram að meiri hluti nefndarinnar hefur gert ákveðnar breytingar en það sýnir ótrúlegt ímyndunarafl af hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að leggja fram frumvarp sem mælir fyrir um þetta. Ætla ég nú að halda áfram með nefndarálit mitt.

Í umsögnum var á það bent að ákvæði 3. mgr. 3. gr. d væri óframkvæmanlegt. Fjármálafyrirtæki hafa engin tól til að fylgjast með því hvort einstaklingur nýti allan gjaldeyri í utanlandsferð eða ekki. Þar að auki bentu umsagnaraðilar á að fjármálafyrirtæki tækju ekki við klinki í erlendri mynt og því óhjákvæmilegt að ákvæðið verði brotið. Jafnframt var á það bent að í frumvarpinu sé ójafnræði á skilaskyldu einstaklinga annars vegar og fyrirtækja hins vegar. Einstaklingur hefur tvær vikur til að skila ónýttum gjaldeyri en fyrirtæki þrjár vikur. 2. minni hluti leggur áherslu á að óeðlilegt er að leggja ríkari skyldur á einstaklinga en fyrirtæki í atvinnurekstri. 2. minni hluti bendir á að í ákvæðinu er enn fremur ekki kveðið á um lágmarksupphæð ónýtts gjaldeyris. Það liggur því í orðanna hljóðan að heimilt verður að refsa einstaklingi með sektum eða fangelsi fyrir að gleyma að skila inn óverulegri fjárhæð og meðalhófs því ekki gætt.

Svo ég víki aftur frá nefndarálitinu bendi ég á að meiri hluti nefndarinnar hefur nú lagað þessa grein frumvarpsins, sem betur fer, en enn og aftur sýnir þetta ótrúlegan hugsanagang hjá hæstv. ríkisstjórn og í raun og veru stjórnarflokkunum að leggja fram hugmyndir sem þessar. Held ég áfram, frú forseti, með nefndarálit mitt.

Að mati 2. minni hluta er áætlun stjórnvalda um afléttingu gjaldeyrishafta, sem frumvarpið byggist á, algjörlega fráleit. Nauðsynlegt er að setja fram metnaðarfyllri áætlun og bendir 2. minni hluti á hugmyndir sem fram koma í umsögn Kauphallarinnar. Þar kemur fram sú skoðun að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin á fáeinum mánuðum og lögð er til áætlun í fimm skrefum. Í henni kemur fram að mikilvægt sé að setja niður ákveðnar dagsetningar er varða leiðina, öllum krónueigendum verður að hleypa að borðinu, bjóða verður upp til kaups ákveðinn hluta gjaldeyrisforðans, álag á verð erlends gjaldeyris verður að öllu jöfnu að lækka í framhaldsútboðum og stefna ætti að afnámi hafta á 6–9 mánuðum. Að mati 2. minni hluta eru hugmyndir Kauphallarinnar vel framkvæmanlegar.

Á 136. löggjafarþingi lagði Framsóknarflokkurinn fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs. Tillagan fólst í því að koma til framkvæmda ákveðnum aðgerðum til að bregðast við fjárhagsvandanum og skapa forsendur til endurreisnar efnahagslífsins. Meðal aðgerða var að samið yrði við erlenda eigendur krónueigna, settur á fót uppboðsmarkaður með krónur, lífeyrissjóðum veitt heimild til gjaldeyrisviðskipta, peningamagn í umferð aukið og veitt heimild til skráningar hlutafjár í erlendri mynt. Tillagan náði því miður ekki fram að ganga. Er það skoðun 2. minni hluta að þær aðgerðir sem tillagan kvað á um séu algjörlega nauðsynlegar til að endurreisa íslenskan efnahag, auka hagvöxt og útrýma því mikla atvinnuleysi sem Íslendingar búa nú við.

Afnám gjaldeyrishafta mun óhjákvæmilega hafa í för með sér aukinn hagvöxt, frjálst flæði erlends fjármagns til landsins og síðast en ekki síst mundu hjól atvinnulífsins fara að snúast með auknum krafti. Það er grundvallaratriði þess að hægt sé að byggja upp það velferðarsamfélag sem þjóðin vill sjá. 2. minni hluti leggst því alfarið gegn samþykkt frumvarpsins.

Undir þetta ritar sá sem hér stendur, Birkir Jón Jónsson.

Frú forseti. Það er mikilvægt að þau stjórnvöld sem eru við völd í landinu í dag boði þjóðinni skýra framtíðarsýn um það hvernig samfélag við viljum byggja upp. Sú framtíðarsýn sem birtist í þessu nefndaráliti og því frumvarpi sem mér sýnist ríkisstjórnin standa á bak við er með þeim hætti að við erum að færa íslenskt samfélag marga áratugi aftur í tímann. Þegar gjaldeyrishöftin voru fyrst sett á voru vinnubrögðin reyndar ekki til mikillar fyrirmyndar. Við settum þau lög — ég man ekki hvað klukkan var, það var örugglega langt liðið á morgun, a.m.k. er ég hér með umræðuna þar sem ég flutti ræðu fyrir hönd okkar framsóknarmanna klukkan 03:37, og mér finnst mikilvægt til að við gerum okkur grein fyrir því hvað við þurfum að vera einbeitt í því að afnema þessi höft, að menn átti sig á í hvers lags ástandi gjaldeyrishöftin voru sett og hvaða vinnulag var þar viðhaft.

Mig langar, með leyfi frú forseta, að rifja aðeins upp þau orð sem ég lét falla, orðinn nokkuð vel þreyttur klukkan að verða fjögur þessa nótt, og kannski ber ræðan þess merki, ég ætla ekki að segja annað, en ég ætla að tæpa á því hvað við framsóknarmenn sögðum þar. Þar var reyndar rætt við herra forseta sem þá var á stóli en nú er hér frú forseti. Tilvitnunin er svona:

„Eins og einhvers staðar stendur, lengi getur vont versnað. Það sem við ræðum hér um miðja nótt, aðfaranótt föstudags, er breyting á lögum um gjaldeyrismál þar sem eftirfarandi er lagt til, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að Seðlabanka Íslands verði í samráði við viðskiptaráðherra heimilt fram til 30. nóvember 2010 að setja reglur sem takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga.“

Á íslensku þýðir þetta að við erum að taka aftur upp skömmtun og höft, höft sem munu kalla á meiri höft, við erum að hverfa aftur til fortíðar, því miður. Það úrræði sem ríkisstjórnin hefur nú lagt fyrir þingið er í raun og veru neyðarúrræði í mjög erfiðri stöðu en ég tel að það sé að verulegu leyti við ríkisstjórnina að sakast hvernig fyrir málum er komið. Virðing framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórnarinnar, fyrir löggjafarþinginu þaðan sem hún á að sækja sitt vald er engin. Við vorum boðuð hingað til fundar klukkan átta í kvöld og á fund í hv. viðskiptanefnd í framhaldi af því um hálfníu. Þar var okkur tilkynnt að þetta frumvarp, sem stjórnarflokkarnir höfðu reyndar farið yfir áður en við höfðum ekki fengið aðgang að, stjórnarandstæðingar, ætti að gjöra svo vel að klára á þessu kvöldi eða í nótt.

Kallaðir voru til gestir og fulltrúar framkvæmdarvaldsins komu á fund nefndarinnar og lýstu því yfir að það væri mjög nauðsynlegt að gera þetta og fóru ágætlega yfir það. En þegar næsti hópur gesta var kallaður inn, sem voru hvorki meira né minna en forustumenn Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, brá manni heldur betur í brún vegna þess að ekkert samráð hafði verið haft við forustumenn stærstu launþegahreyfinganna í landinu og atvinnulífsins.“

Og seinna segir:

„Látum vera þó að ríkisstjórnin ákveði að hunsa litlu stjórnarandstöðuna á Alþingi en að kasta stríðshanskanum með þessum hætti til aðila vinnumarkaðarins er með ólíkindum. Ég upplifði fund viðskiptanefndar þannig í kvöld að friður væri rofinn á vinnumarkaðnum með framferði ríkisstjórnarinnar. Hverjir hafa ekki sagt í ræðustóli Alþingis að nú sé nauðsynlegt að allir gangi í takt? Við hljótum að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum var því ekki haft samráð við þá aðila sem gegna lykilhlutverki í því að leiða nýja þjóðarsátt og byggja upp nýtt Ísland? Ég held að stjórnarliðar verði að svara því í þessari umræðu því að hér er um mjög stór mistök að ræða að mínu mati og aðilar vinnumarkaðarins hefðu þurft að koma fyrr að þessu máli.“

Í lok ræðu minnar tók ég svo sterkt til orða að tala um að hér væri um að ræða svartan dag í sögu Íslands og ég held að það sé ekki ofmælt þegar við horfum á þá reynslu sem gjaldeyrishöft og æ strangari höft hafa haft á íslenskt efnahagslíf fram til dagsins í dag. Nú á sem sagt að ganga enn frekar fram og lengja í þessum höftum. Maður veltir fyrir sér hvað hv. stjórnarliðar vilji gera í þessum efnum.

Nú hafa komið fram aðilar, eins og til að mynda Kauphöll Íslands, með mjög framsæknar hugmyndir um það hvernig megi létta gjaldeyrishöftunum af hið fyrsta. Það væri ágætt að heyra sjónarmið hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar í þessari umræðu, hvort hann telji ekki að við eigum að reyna að aflétta þessum höftum hið fyrsta með mjög ákveðnum hætti, með öflugri áætlanagerð sem verður síðan staðið við. Allt frá hruni hefur efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar einkennst af hringlandahætti. Þar af leiðandi hefur traust á stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum beðið mikinn hnekki sem hefur valdið því að fjárfesting í íslensku atvinnulífi hefur verið mjög takmörkuð, að við tölum ekki um beina erlenda fjárfestingu sem hefði getað verið búin að skapa hér á landi þúsundir starfa. Ég þarf ekki að minna hv. þingmenn sem eru í salnum á það að á Íslandi eru 15 þús. einstaklingar án atvinnu í dag og þúsundir Íslendinga til viðbótar hafa flutt af landi brott á síðustu tveimur árum.

Nú stöndum við hér í júnímánuði árið 2011. Það var eftirtektarvert þegar hv. þm. Lilja Mósesdóttir minntist þess áðan að Framsóknarflokkurinn hefði lagt fram útfærðar tillögur um það hvernig við gætum afnumið gjaldeyrishöftin með skjótvirkari hætti en við ræðum hér. Það eru tvö og hálft ár síðan þingflokkur Framsóknarflokksins lagði fram tillögu í 18 liðum um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs. Þar sögðum við í greinargerð, með leyfi frú forseta:

„Minnihlutaríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tók til starfa 1. febrúar 2009. Framsóknarflokkurinn hefur heitið því að verja minnihlutaríkisstjórnina vantrausti á Alþingi og setti fyrir því tiltekin skilyrði. Í því fólst fyrst og fremst að þá strax yrði ráðist í efnahagslegar aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs. Framsóknarflokkurinn var þeirrar skoðunar að ekki mætti bíða með aðgerðir til að forða þjóðinni frá frekari áföllum en orðið höfðu. Þegar tillaga þessi er lögð fram á Alþingi er liðinn rúmlega einn mánuður frá því að minnihlutaríkisstjórnin tók til starfa og telja framsóknarmenn að ríkisstjórnin hafi ekki ráðist í þær nauðsynlegu og aðkallandi aðgerðir sem voru forsendur þess að ríkisstjórnin var mynduð með atbeina Framsóknarflokksins.“

Nú er hægt að segja sem svo að þessar 18 tillögur sem þingflokkur Framsóknarflokksins lagði fram í efnahags- og atvinnumálum hafi ekki fengið blíðar viðtökur. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra voru ekki lengi að slá út af borðinu þær 18 hugmyndir sem þingflokkurinn lagði fram í samráði við marga af helstu sérfræðingum þjóðarinnar í efnahagsmálum í skólakerfinu og atvinnulífinu. Það tók hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon einungis örfáar klukkustundir að slá allar þessar tillögur út af borðinu — og hvers vegna? Vegna þess að það vildi svo til að þessar tillögur komu ekki úr röðum stjórnarliða heldur frá Framsóknarflokknum. Sú yfirgripsmikla þekking sem hæstv. ráðherrar hafa greinilega þá umfram þá sérfræðinga sem þingflokkur Framsóknarflokksins hafði ráðfært sig við um margra mánaða skeið var svo mikil að það tók ekki nema nokkur andartök að rusla þeim eins og þær lögðu sig út af borðinu.

Hver er staðan í dag? Mest var rætt um tillögur Framsóknarflokksins um skuldaleiðréttingar heimila og fyrirtækja. Við sögðum, og segjum enn, að verulegt svigrúm hafi verið til innan bankanna — sem nota bene eru nú í eigu einhverra óskilgreindra erlendra kröfuhafa sem rukka heimilin 100% þó að þeir hafi fengið lánasöfn bankanna með umtalsverðum afslætti — við töluðum fyrir því þá, þegar bankarnir voru allir á hendi ríkisins, að við ættum að koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki vegna þess að lánin stökkbreyttust í kjölfar efnahagshrunsins. Það var ekkert hlustað á það, þess í stað var sagt: Við skulum leysa skuldamál heimilanna með sértækum hætti. Það verður farið yfir heimilisbókhald hvers og eins — og hver er staðan? 80 manns vinna hjá umboðsmanni skuldara, trúlega mjög gott verk. Mig minnir að þar séu um 2 þús. einstaklingar á biðlista eftir úrræðum. Þau afkasta því að leysa úr skuldavanda 300 einstaklinga eða fjölskyldna á mánuði og annað eins bætist við þannig að sú sértæka leið sem ríkisstjórnin barðist fyrir á sínum tíma hefur snúist upp í andhverfu sína. Margir eru orðnir dauðuppgefnir á því að reyna að komast í gegnum þennan frumskóg sem flókið regluverk er og það hefur sært réttlætiskennd að minnsta kosti þess sem hér stendur að horfa upp á það hvernig farið hefur verið með skuldugt fólk og atvinnulíf landsins í kjölfar hrunsins, allt í boði norrænu velferðarstjórnarinnar.

Það sem mig langaði að benda á er að í þessari tillögu til þingsályktunar nefnir þingflokkur Framsóknarflokksins nokkrar leiðir til að afnema gjaldeyrishöftin með sneggri hætti en efni stóðu þá til. Það vill svo til að núna, tveimur og hálfu ári seinna, er meðal annars verið að setja á fót uppboðsmarkað með krónur. Að hugsa sér, tveimur og hálfu ári eftir að þingflokkur Framsóknarflokksins lagði þessa hugmynd fram. En vegna þess að Framsóknarflokkurinn lagði hana fram var það ómögulegt í augum hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra.

Þessir sömu hæstv. ráðherrar tala fyrir því á tyllidögum að við séum öll um borð í sama bátnum og eigum að róa í sömu átt. En að hverju hafa hæstv. ráðherrar orðið uppvísir með vinnubrögðum sínum, þá sérstaklega þegar við ræðum þessi mál? Allt yfirbragð þessa frumvarps er ekki það Ísland sem ég vil tilheyra á næstu árum. Aukin boð og aukin bönn, að sjálfsögðu þurfa að vera takmörk fyrir öllu en ég held að við séum komin langt út fyrir öll mörk í þeim efnum. Þegar menn leggja fram frumvörp þar sem hugmyndafræðin er sú að kanna hvort einstaklingar hafi haft efni á því að kaupa sér gjaldeyri gegn framvísun farseðils, að það verði ráðist í rannsókn á því hvort foreldrar háskólanema eða afar og ömmur sem gáfu viðkomandi einstaklingum utanlandsferðina í gjöf — og að sjálfsögðu eiga námsmenn enga peninga — að það hafi átt að vera skylda samkvæmt frumvarpinu að fara í formlega rannsókn á öllum millifærslum marga mánuði aftur í tímann hjá viðkomanda. Ef það hefði komið í ljós að afinn eða amman hefðu lagt 200 þús. eða 300 þús. inn á reikning viðkomandi barnabarns væri óheimilt að gefa barnabarninu eða syninum eða dótturinni gjaldeyri til að nota í útlöndum. Í hvers lags samfélag erum við að þróast? Sem betur fer voru, eins og ég sagði áðan, gerðar ákveðnar leiðréttingar á því en bara það að hafa ímyndunarafl til að leggja fram slíkt frumvarp er með ólíkindum. Svo er hitt, eins og menn viti ekki hvernig bankastarfsemi er í dag, að ætla að gera landsmönnum það þegar þeir koma til landsins að skila öllum gjaldeyri inn í viðskiptabankann sinn, þó að það séu 5 evrur, eitthvert klink — sem er meira að segja ekki hægt í dag. Sumum í efnahags- og skattanefnd þingsins datt í hug hvort þetta væri liður í atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar til að fjölga störfum því að það kom fram hjá viðskiptabönkunum að það þyrfti aragrúa af fólki annars vegar í að rannsaka hvort fólk hefði efni á að kaupa gjaldeyri yfir höfuð og hins vegar að hafa eftirlit með því að fólk mundi gjöra svo vel að skila öllu klinkinu inn í viðskiptabankana þegar það væri komið heim. Allt þetta samfélag og öll tortryggni eftirlits er nokkuð sem við eigum ekki að leiðast út í. Ég geld varhuga við þeirri hugmyndafræði sem blasir við okkur auk þess sem þau skilaboð sem við erum að senda, ekki bara þjóðinni heldur erlendum aðilum sem horfa hingað til atvinnuuppbyggingar sem eru sem betur fer enn til staðar, um að við ætlum að framlengja þessi höft til 31. desember árið 2015 eru kolröng. Við eigum ekki að festa þessar reglur í lög og ég trúi því varla að ekki sé hægt að finna einn einasta stuðningsmann stjórnarliðsins sem hafi efasemdir um að það sé rétt að setja þetta ákvæði í lög, þessa tímasetningu. Ég bara trúi því ekki þannig að það verður mjög áhugavert að heyra hv. þm. Árna Þór Sigurðsson koma upp á eftir og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum í þessum efnum.

Frú forseti. Ég þarf ekki að fara yfir það hvernig síðustu höft léku þjóðina. Þau voru sett á tímabundið eftir kreppuna um 1930, stóðu í 60 ár og það voru orðnir kvótar á því hversu marga bíla og traktora var hægt að flytja inn og jafnvel skipti máli hvort menn voru meðlimir í stjórnmálaflokkum. Samfélagið er sem betur fer ekki komið í þau hjólför enn, en hvar endum við ef við ætlum að halda áfram á þessari vegferð? Einhvers staðar verðum við að segja stopp og það er ljóst að aukin höft kalla á meiri höft, menn finna glufur fram hjá þeim. Þess vegna þurfum við að einblína á það að komast sem fyrst út úr þeim vítahring sem við erum því miður í og ég hvet okkur þá til þess að gera það á vettvangi efnahags- og skattanefndar. Við skulum leyfa hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra að sitja einu sinni hjá í þeirri vinnu vegna þess að ef svo óheppilega færi í þeirri umræðu að hv. þm. Lilja Mósesdóttir eða hv. þm. Pétur Blöndal kæmu fram með einhverjar snjallar hugmyndir yrðu þær slegnar út af borðinu vegna þess að þær kæmu úr rangri átt. Þú fyrirgefur, frú forseti, en ég ætla að leyfa mér að segja að mér finnst þetta hálfsmábarnalegt. Mér finnst eins og við séum stundum krakkar á leikskóla af því að ef eitthvað kemur frá öðrum er það ómögulegt. Við verðum að koma okkur úr þessum gír sem við erum föst í.

Frú forseti. Ég mun tala fyrir því að þetta mál verði ekki afgreitt héðan áður en Alþingi lýkur störfum í vor. Það er engin ástæða til að gera það, það er engin knýjandi þörf. Það kom fram, m.a. hjá Seðlabankanum á fundi efnahags- og skattanefndar. Það er ekki álit Seðlabankans að það sé lífsnauðsyn að setja þessi lög. Þessa vegna veltir maður fyrir sér þegar við erum að ræða um mörg mál, eins og til að mynda bandorminn sem hefur áhrif á kjarasamninga o.fl., hvort ekki væri réttara að láta þetta mál liggja og ræða frekar annað mál sem er mjög heitt í efnahags- og skattanefnd. Svo vil ég segja til að gæta allrar sanngirni að þeir ágætu þingmenn sem skipa meiri hlutann í efnahags- og skattanefnd eiga alla mína samúð fyrir það hlutverk að þurfa að taka á móti þessum frumvörpum. Það frumvarp er, ef eitthvað er, nærri því verra en það frumvarp sem við ræðum hér. Þó varla, þetta er eiginlega það versta. Hv. stjórnarliðum er vorkunn að þurfa að taka málin með þessum hætti þar sem hverri einustu grein er breytt. Málin eru svo hroðvirknislega unnin að meira að segja heiti á köflunum í lagabálkunum eru vitlaus, allt vegna þess hversu mikill æðibunugangurinn er. Það er önnur saga og við eigum eftir að ræða hana hér.

Ég vara við því að við festum höftin enn frekar í sessi á vettvangi Alþingis. Það eru mjög mikil skilaboð ef við samþykkjum á Alþingi að lögfesta þessar reglur Seðlabankans. Við hljótum að vilja stefna að því, hvar í flokki sem við stöndum, að þessi höft verði afnumin hið fyrsta og ég fer þess vegna fram á það að við hefjum Alþingi upp til vegs og virðingar. Við höfum fengið margar ágætar tillögur og hv. efnahags- og skattanefnd getur tekið málið fyrir og við leyst málið á þeim vettvangi vegna þess að það sem hefur komið frá framkvæmdarvaldinu (Forseti hringir.) hefur ekki reynst vel hingað til.