139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Okkur er mjög skammur tími skammtaður til að ræða mjög áhugavert málefni en ég ætla að reyna að tala aðeins hraðar ef mér tekst.

Ég vil byrja á því að hrósa Framsóknarflokknum fyrir þessar tillögur sem flokkurinn lagði fram í febrúar 2009 og harma þá skammsýni sem minni hlutinn sýndi með því að skjóta tillögurnar í kaf og skoða þær ekki betur og fá umræður um þær. Vonandi fáum við umræður í dag um þær tillögur sem nú liggja á borðinu, sem eru þá uppboðsmarkaðsleiðin, skuldabréfaleiðin og skattlagningarleiðin.

Það sem ég vil spyrja hv. þingmann út í eru nánari upplýsingar um uppboðsmarkaðinn. Átti að takmarka magnið sem færi inn á hann? Lögðuð þið til að skattur yrði lagður á viðskiptin sem færu fram á uppboðsmarkaðnum? Byggði tillagan um uppboðsmarkað á reynslu annarra þjóða eða voru þetta bara ráðleggingar sérfræðinga sem þið nýttuð ykkur?