139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst að fyrri hluta andsvarsins frá hv. þingmanni þá þakka ég hlý orð í garð okkar framsóknarmanna og þeirra tillagna sem við höfum lagt fram. Ég vil minna á að hv. þingmaður hefur sjálf komið fram með margar ágætar hugmyndir og margar þeirra hafa líka rímað við hugmyndir Framsóknarflokksins þó að sumar séu ólíkar eins og eðlilegt er. En allt á þetta eitt sameiginlegt, öllum þeim hugmyndum var varpað fyrir róða og þær voru mjög lítið skoðaðar á sínum tíma.

Hvað varðar uppboðsmarkaðinn var mín sýn sú að menn mundu takmarka það magn sem væri í boði. Það er alveg ljóst að við höfum mjög takmarkaðar upplýsingar um hvernig þessi markaður er. Að sjálfsögðu þarf að stíga ákveðin skref og við þurfum að áfangaskipta þeim með einhverjum hætti, en að ætla að opna á þetta allt í einu var aldrei hugmyndin.