139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér varpar hv. þingmaður aldeilis fram risastórri spurningu sem erfitt er að svara á örstuttum tíma vegna þess að málið er umfangsmikið og flókið. Stutta útgáfan væri sú að með því að fara fram með þeim hætti að setja takmarkað magn í uppboðsferil og við mundum sjá að þrýstingurinn væri óhóflegur þá gengi sú hugmynd að sjálfsögðu ekki upp að höftin mundu einungis vara í sex eða níu mánuði. Það yrði óhjákvæmilega eitthvað að lengja í því ferli. Ég vonaðist til að ekki þyrfti að lengja ferlið fram yfir árið 2015 og vonandi einungis um nokkra mánuði. En ef slíkt alvarlegt ástand kæmi upp yrðum við náttúrlega að setjast niður og fara mjög vandlega yfir málið. Það hefur ekki verið stefna Framsóknarflokksins að taka einhliða upp annan gjaldmiðil en að sjálfsögðu verðum við alltaf að vera vakin og sofin yfir því hver þróun og ástand fjármálamarkaðarins er og efnahagslífs okkar. Ég held því að best sé að læsa sig ekki hér og nú í neinni afstöðu í þeim efnum.