139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að gefa mér færi á að svara áleitinni spurningu sem hann lagði fyrir mig í máli sínu.

Mér fannst einkenna ræðu þingmannsins, sem var prýðilega flutt eins og jafnan, að hann var að tala um frumvarpið eins og það kom inn í þingið meira og minna (BJJ: Og ímyndunaraflið.) en ekki eins og það lítur út eftir meðferð hv. efnahags- og skattanefndar, sem ég tel að hafi unnið ágætlega að því að gera á því margvíslegar breytingar, m.a. að koma til móts við þau viðhorf sem hv. þingmaður rakti í máli sínu og bæta úr ýmsum ágöllum á því. Ég vil láta það koma fram.

Varðandi gjaldeyrishöftin er það skoðun mín að það sé brýnt að reyna að aflétta gjaldeyrishöftunum sem fyrst en þá um leið tryggja fjármálalegan stöðugleika í landinu og gengisstöðugleika. Ég held að við séum öll sammála um það.

Hvaða aðferð er best? Í hvaða skrefum? Hversu hratt? Um það deila menn mjög mikið í samfélaginu í dag, m.a. skari hagfræðinga sem kemur fram á sjónarsviðið og hefur alls konar ólíkar skoðanir í því efni.