139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og spyrja hann um eitt. Fyrr í dag heyrðum við frá Baldri Þórhallssyni, nýjum hv. þingmanni, að við ættum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Þá yrði allt betra, vextir lækkuðu, laun hækkuðu, verðlag lækkaði o.s.frv. og veðrið batnaði, ég veit ekki hvað og hvað. En þetta er gamaldagsræða. Er hv. þingmaður sama sinnis? Nú veit ég að hann vill gjarnan ganga í Evrópusambandið.

Haustið 2008 stuttu eftir gjaldeyrishrunið lagði ég til að tekið yrði upp tvöfalt gengi, við mundum halda uppboð á aflandskrónum. Þá fékk ég skilaboð um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafnaði alfarið tvöföldu gengi, alls staðar. Hann kom því í veg fyrir það þá en nú virðist hann hafa sætt sig við það því að Seðlabankinn var með uppboð í dag. Og þá kemur önnur spurning til hv. þingmanns: Telur hann ekki rétt að hv. nefnd og Alþingi bíði eftir því að skoða það uppboð sem fór fram í dag og liggur fyrir núna? Mér skilst að gengið hafi verið einungis 30% yfir skráðu gengi Seðlabankans, hvort ekki sé ástæða til að skoða það.

Svo kem ég að spurningunni um dagsetninguna 31. ágúst 2011 sem reglur renna út. Er ekki það eina sem við þurfum að gera að framlengja hana fram í nóvember?