139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Margar spurningar og ein mínúta. Varðandi fyrstu spurninguna um upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu þá er alveg ljóst, og ég held að við vitum það allir hv. þingmenn, að við tökum ekki upp evru sisvona. Það er margra ára ferli þar sem við þurfum að uppfylla ákveðin skilyrði. Það er engin töfralausn á vanda okkar í dag. Innganga í Evrópusambandið mundi að sama skapi ekki vera nein ákveðin töfralausn þó að ég styðji þær viðræður sem eru í gangi um það mál.

Annað sem varðar síðustu spurningu hv. þingmanns. Ég tel að við þurfum að fara ítarlega yfir þetta útboð og sjá hver staðan er, hver þrýstingurinn er á gjaldmiðilinn okkar. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við ræðum það mál og styður það enn frekar að málið fari milli 2. og 3. umr. til efnahags- og skattanefndar til ítarlegrar umfjöllunar.