139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

umræður um dagskrármál.

[19:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir þessar skýringar. Það er rétt sem fram kom hjá forseta að samkomulag var um að byrja á ákveðnu máli. Það er hins vegar mjög undarlegt að stöðva umræðu og í raun slíta henni, ef ég hef skilið þær upptökur rétt af fundinum sem ég er búinn að hlusta á, að forseti hafi slitið eða sagt að umræðunni væri lokið í stað þess að fresta henni þegar ljóst var að það voru þingmenn sem vildu veita andsvar við ræðu þingmannsins. Ég vil gera alvarlegar athugasemdir við þetta, frú forseti.

Það skiptir í sjálfu sér ekki máli í þessu tilfelli að átt hafi að taka annað mál á dagskrá á ákveðnum tíma. Það er ekki hægt að taka af þingmönnum í miðri ræðu að klára andsvör eða klára ræðuna. Við hljótum að gera athugasemdir við það.

Ég veit hins vegar ekki til að það hafi verið endilega samkomulag um að slíta þeim ræðum sem voru í gangi á þeim tíma.