139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Hún hefur oft talað um að Alþingi eigi að vanda löggjöfina og hefur barist fyrir því að sett verði á fót lagaskrifstofa Alþingis til þess að styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Hv. þingmaður talaði um nefndarálit frá 3. minni hluta í ræðu sinni og fannst það mjög vandað. Það er unnið af hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni og Pétri Blöndal. Þar kemur fram sú ábending að í frumvarpinu séu taldar upp fjármagnshreyfingar sem lýstar eru ólögmætar en síðan sé Seðlabankanum veitt nánast ótakmörkuð heimild til að gera undanþágur frá því sem fram kemur í lögunum.

Því vil ég spyrja hv. þingmann, sérstaklega í ljósi þess að við höfum rætt önnur mál á undan þar sem talað var um alræðisráðherravald þó að það sé ekki beinlínis í þessu tilfelli: Hvað finnst hv. þingmanni um svona löggjöf?

Síðan tók ég eftir því í þessu ágæta nefndaráliti sem er mjög sláandi að fram kemur að þeir sem eru með um 80% af tekjum og 80% af útgjöldum erlendis geta fengið undanþágur frá stórum hluta gjaldeyrishaftanna. Eitt stærsta fyrirtæki landsins, Icelandic Group, er með um 70% í erlendri mynt, sem útilokar fyrirtækið þá frá erlendum lántökum og þar fram eftir götunum. Fram kom hjá fjármálastjóra fyrirtækisins á fundi nefndarinnar að hugsanlega mundi það ákvæði leiða til þess að félagið mundi flytja höfuðstöðvarnar úr landi. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Er því fólki sjálfrátt sem ætlar að setja svona lög nánast til að reka eitt blómlegasta og besta fyrirtæki landsins úr landi með höfuðstöðvar sínar? Hvað finnst hv. þingmanni um svona vinnubrögð?