139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er akkúrat á þeirri leið með því að tala niður íslensku krónuna, íslenskt efnahagslíf með yfirlýsingum sínum. Hvergi nokkurs staðar á byggðu bóli mundi ráðherra fara gegn sínum eigin gjaldmiðli nema hafa eitthvað annarlegt í huga. Auðvitað vitum við á hvaða leið Samfylkingin er, hún er í hraðlestinni á leið til Brussel, það bara þarf ekkert að spyrja neitt meira um það enda hefur það komið fram í mörgum ræðum í dag.

Varðandi 80% regluna — ég náði ekki að ljúka máli mínu áðan um að beina lagasetningu að einstökum fyrirtækjum eða einstaklingum. Það er einungis eitt fyrirtæki hér á landi sem fellur undir þessa 80% reglu og það er Actavis. Það er eins og verið sé að beina lagasetningunni að Actavis vegna þess að þeir eru með rúmlega 80% af tekjum og 80% af gjöldum erlendis og geta því fengið hér ótakmarkaðan gjaldeyri.