139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það fer ekki fram hjá neinum að hraðlestin stefnir til Brussel og þar er Samfylkingin í stýrishúsinu. En hverjum hefði dottið í hug að Vinstri grænir væru kolamokarar í þeirri ferð? Hverjum hefði dottið það í hug fyrir kosningar?

Hv. þm. Birgir Ármannsson spyr mig um tengsl þessa máls og umsóknarinnar að ESB. Þau tengsl eru alveg ljós. Það hefur komið fram í máli þingmanna Samfylkingarinnar og náttúrlega hæstv. forsætisráðherra að þau sjá fyrir sér að hægt sé að kjósa um aðildarsamning 2013. Það á sem sagt að láta þjóðina kjósa um gamla Evrópusambandið en blekkja hana um leið því að Evrópusambandið breytist mjög 2014 þegar nýr Lissabon-sáttmáli tekur gildi. Þá tekur allt annað Evrópusamband við, hið Þýskalands-vædda Evrópusamband, hið nýja Evrópusamband.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur í ræðu og riti haft það uppi að eftir að þjóðin verði búin að samþykkja samning í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ég veit að hún mun ekki gera vegna andstöðu við Evrópusambandið, taki eitt og hálft til tvö ár að taka upp evru. Ártölin passa, árið 2013 hefur verið sett fram í hótunum frá hæstv. forsætisráðherra. Hér er lokadagsetning 31. desember 2015 þannig að það er alveg ljóst að verið er að smíða lagafrumvarp hér á Íslandi varðandi gjaldeyrishöft. Það á að knésetja okkur á þann hátt, líklega pína okkur í Evrópusambandið, að við verðum svo fegin þegar taka eigi upp evru að samningurinn verði samþykktur. Þetta eru ógeðfelld vinnubrögð að mínu mati, sérstaklega í ljósi þess að Ísland er svo langt frá því að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Ég held að það sé einhver Evrópusambandsglampi í augum Samfylkingarinnar frekar en að þeir sjái stöðuna eins og hún er.