139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hlý orð í minn garð. Sumir þingmenn kalla það að hugsa út fyrir boxið samsæri en það er fallegra að orða það á þennan veg. Ég þakka honum fyrir það hrós.

Það er augljóst að þessi þríliða, eins og þingmaðurinn kallar það, er til þess fallin að gera þetta á þennan veg, að skemma sem mest áður en gengið er gullna veginn til Brussel. Ég sagði áðan að það mundi ekki nokkurs staðar þekkjast á byggðu bóli að ráðherra talaði niður sinn eigin gjaldmiðil og legði það svo til að setja á hann gjaldeyrishöft til þess eins að eygja þann möguleika að koma heilli þjóð inn í það ríkjasamband sem Evrópusambandið er. Það er mjög alvarlegt að þetta sé þannig, sérstaklega í ljósi þess að við eigum gnótt auðlinda og það er eftir miklu að slægjast.

Ég veit ekki með hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra en kannski er orðið tímabært að lýst verði á hann vantrausti vegna þess að hann talar með þessum hætti. Hver á að standa með þjóð sinni og þeim gæðum sem hún ræður yfir annar en ráðherra í ríkisstjórninni? Hann er einn af tíu ráðherrum og ber mikla ábyrgð. Það er svo einkennilegt að eftir að Samfylkingin kom í ríkisstjórn, ég vil minna á að hún hefur verið fjögur ár í ríkisstjórn þó að hún kannist ekki við að hafa verið nema í tvö ár, þá er þessi ábyrgð til staðar.

Þetta er hálfsubbuleg aðferð við að koma okkur inn í Evrópusambandið. En því miður er staðan sú að þráin eftir því að komast þangað inn er svo mikil að meira að segja ráðherra leggur það til að EES-samningurinn sé brotinn með afgerandi hætti með því að hamla frjálsu flæði fjármagns á milli landa.