139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stefna Framsóknarflokksins er sú stefna sem Seðlabankinn reyndi í dag, það er uppboðsmarkaður með aflandskrónur. Sú leið reyndist mjög vel. En eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir fjallaði um í ræðu sinni skiptir það greinilega máli hvaðan góðar hugmyndir koma. Ef þær koma frá stjórnarandstöðunni eru þær ekki brúklegar hjá ríkisstjórninni fyrr en ákveðinn fyrningartími er liðinn og þær komnar í nýjan búning sem ríkisstjórnin sníðir sjálf: 20% leið Framsóknarflokksins með skuldaniðurfellingu heimilanna, uppboðsleið með aflandskrónur sem Framsóknarflokkurinn átti. Þingmaðurinn sem ég vísaði í lagði til skattlagningu. Hæstv. fjármálaráðherra er búinn að vera út um allt í öllum vösum, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum, að finna nýja skattstofna og honum datt ekki í hug að nota það.

Uppboðsleiðin er augljóslega sú leið sem við eigum að fara enda kom í ljós í dag að sú leið snarvirkaði.