139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frumvarp sem er talið ein stærstu hagstjórnarmistök í íslenskri hagsögu svo vitnað sé í aðila sem gaf umsögn um frumvarpið. Mig langar af þessu tilefni að lesa upp Maastricht-skilyrðin sem við þurfum að uppfylla til að geta tekið upp evru:

1. Verðbólga í ríkinu má ekki verða meiri en 1,5% hærri en í þeim þremur ESB-löndum sem hafa minnsta verðbólgu.

2. Í eitt ár eiga meðalnafnvextir á langtímabréfum að vera hámark 2% hærri en í þeim þremur ESB-löndum sem hafa lægstu vexti.

3. Viðkomandi land þarf að hafa verið í gengissamstarfi við Evrópu, svokallað ERM, í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar.

4. Fjárlagahalli má ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu.

5. Heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en 60% af vergri landsframleiðslu.

Segjum sem svo, hv. þm. Birgir Ármannsson, að það sé stefna Samfylkingarinnar að hafa hér gjaldeyrishöft til 2015, sem lagt er til í frumvarpinu, telur þingmaðurinn að Íslendingar eigi einhvern möguleika á að uppfylla Maastricht-skilyrðin til að geta séð til lands í því að taka hér upp evru samþykki þjóðin það í þjóðaratkvæðagreiðslu 2013 að ganga til liðs við sambandið eins og hæstv. forsætisráðherra hefur hótað? Ef ekki er þá um einhvers konar undanþágu að ræða varðandi að taka hér upp evru?

Fimmti punturinn, að skuldirnar megi ekki vera hærri en 60% af vergri landsframleiðslu, gefur ákveðin viðvörunarljós eins og allir hinir punktarnir að vísu. Hvað er í gangi ef þetta er einlæg ósk Samfylkingarinnar og málið er skoðað í samhengi, þ.e. þetta frumvarp um gjaldeyrishöftin, Maastricht-skilyrðin og ártalið 2015?