139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir ræddum fyrr í kvöld um samhengið milli Evrópusambandsmálsins og hins langa gildistíma gjaldeyrishaftanna miðað við þetta frumvarp. Ég ætla ekkert að fara nánar í það, ég held að við séum sammála um að þarna á milli séu einhver tengsl. Ég held ekki að það sé tilviljun að ákveðið er að setja gjaldeyrishöftin svona langt fram í tímann. Það kann að vera í þeirri von að það stemmi við upptöku evrunnar og aðild að Evrópusambandinu þó að ég sé þeirrar skoðunar, eins og fram kom hjá mér áðan, að jafnvel þótt svo færi að Ísland samþykkti að ganga í Evrópusambandið mundi lengri tími líða þangað til evran yrði tekin upp. Ég er ekki viss um að þeir efnahagslegu þættir sem getið er um í Maastricht-skilyrðunum verði uppfylltir. Ég hef reyndar talsverðar áhyggjur af því.

Auðvitað eru þau markmið sem lesa má út úr Maastricht-skilmálunum sem slíkum almennt jákvæð. Ef við lítum á Maastricht-skilyrðin er jákvætt fyrir eitt ríki að ná þeim markmiðum einfaldlega vegna þess að þau fela í sér að viðkomandi ríki hefur náð ákveðnum tökum á eigin efnahag og fjármálum. Hvort okkur tekst að uppfylla þessi skilyrði fyrir 2015 leyfi ég mér að efast um þó að við verðum auðvitað að vona það besta út frá efnahagslegum þáttum.

Eins og hv. þingmaður kæri ég mig ekki um aðild að Evrópusambandinu og vil ekki að við tökum upp evruna. Hins vegar vona ég að efnahagsleg skilyrði (Forseti hringir.) batni frá því sem nú er.