139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er meiri friður yfir vötnunum í þessari umræðu en árið 2008 þegar gjaldeyrishöftin voru sett á og nokkuð þung orð féllu þá á milli mín og hv. þingmanns sem er alla jafna frekar óvenjulegt. Þess ber að geta að við vorum að ræða um stórt og umfangsmikið mál. Ég man að Framsóknarflokkurinn var sakaður um ábyrgðarleysi fyrir að vilja ekki styðja upptöku gjaldeyrishafta en það vildi svo til að ég sá í gömlum glósum eftir að hafa setið fund viðskiptanefndar þá nótt að allir helstu sérfræðingar þjóðarinnar í efnahagsmálum, hvort sem um var að ræða frá samtökum launafólks eða atvinnurekenda, voru sammála þeirri afstöðu Framsóknarflokksins að styðja ekki upptöku gjaldeyrishafta. Það er önnur saga.

Hv. þingmaður rakti ágætlega áðan það ferli sem fyrrum ríkisstjórnir hafa ætlað sér í afnámi haftanna og öll þessi gildistökuákvæði. Það er í raun og veru óhugnanlegt að sjá gildistökuákvæði núna 31. desember 2015 þar sem síðustu tvö gildistökuákvæði hafa ekki gengið eftir, menn hafa sífellt framlengt, og ég spyr hvort við þurfum ekki að fara að hugsa þessi mál upp á nýtt. Við hv. þm. Pétur Blöndal ræddum það fyrr í umræðunni í dag hvort ekki væru hreinlega efni til þess að málið yrði tekið inn í efnahags- og skattanefnd aftur og sú nefnd, með þá ágætu þekkingu sem þar er innan borðs, tæki málið einfaldlega upp, fundaði með helstu efnahagssérfræðingum þjóðarinnar og legði fram raunverulega tímasetta áætlun um það hvernig við eigum að afnema höftin. Væri það ekki réttara en að fela framkvæmdarvaldinu sí og æ að koma fram með slíkar áætlanir sem hafa engar staðist hingað til?