139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mig langar að spyrja um álit hans á því hvernig stjórnvöld hafa staðið að afnámi gjaldeyrishafta fram til dagsins í dag, a.m.k. tilraunum til þess. Mig langar að vekja athygli hv. þingmanns á því að í febrúar árið 2009, þ.e. fyrir tveimur og hálfu ári, lagði þingflokkur Framsóknarflokksins fram þingsályktunartillögu um aðgerðir til að afnema gjaldeyrishöftin með sneggri hætti en orðið er. Svo vill til að núna, rúmum tveimur árum síðar, kemur frumvarp frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem mælir fyrir um að fara þá leið sem Framsóknarflokkurinn lagði til fyrir rúmum tveimur árum.

Ég tek undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, það virðist þurfa ákveðinn fyrningartíma þangað til hæstv. ríkisstjórn getur nýtt sér nothæfar hugmyndir til að komast út úr þeim erfiðleikum sem blasa (Forseti hringir.) við okkur öllum hér. Það væri gott að heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað þetta varðar.