139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það kann að vera að við öll hefðum stundum gott af því að leggja betur við eyrun þegar framsóknarmenn tala (Gripið fram í: Rétt.) og ég get ábyggilega játað á mig einhverjar yfirsjónir í því sambandi eins og svo margir aðrir.

Við erum að tala um tvo hluti, annars vegar getum við rætt það hvort menn tóku réttar ákvarðanir í nóvember 2008 og hins vegar hvort menn hafa staðið sig í stykkinu á þeim tíma sem liðinn er frá því að gjaldeyrishöftin komust á. Ég hef mínar skoðanir á því að þetta hafi gengið allt of hægt og menn hafi ekki nýtt þann tíma nægilega vel sem um hefur verið að ræða. Það skiptir kannski ekki öllu máli í dag, það sem skiptir máli í dag er hvernig við ætlum að haga þessum málum til framtíðar. Þar hygg ég að við hv. þingmaður deilum þeim sjónarmiðum að það sé fullkomið óráð að fara að þeirri tillögu ríkisstjórnarinnar sem felst í þessu frumvarpi. (Gripið fram í: Rétt.) (Gripið fram í: Það er ekki hægt.)