139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og vil fyrst spyrja hann hvort hann telji það ekki nokkuð lýsandi fyrir ráðaleysi stjórnarandstöðunnar í þeim erfiðu málefnum sem hér eru að það skuli liggja fyrir ekki færri en þrjú álit frá minni hlutanum og sjónarmið allt frá því að gjaldeyrishöft séu góð og skili okkur lægra vaxtastigi og yfir í það að þau séu algjörlega þveröfugt.

Hins vegar spyr ég, vegna þess að hv. þingmaður deilir með mér þeirri afstöðu að höftin séu vond og að best væri að vera laus við þau: Hvaða áhrif heldur þingmaðurinn að það mundi hafa á gengi krónunnar ef höftin yrðu afnumin núna? Telur hann að það leiddi til þess að gengi krónunnar lækkaði? Telur hann að það mundi þá lækka mikið og hvaða áhrif almennt telur hann að það mundi hafa á efnahags- og atvinnulífið hér í landinu á allra næstu missirum?