139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, við gætum rætt um það hvort hægt væri að taka skrefið á nokkrum mánuðum eða nokkrum árum eins og ég horfi á þetta. Raunar er ekki alveg rétt að halda því fram að þau sjónarmið hafi ekki heyrst í umræðum í þjóðfélaginu að unnt yrði að svipta gjaldeyrishöftunum burt fyrirvaralítið. Þó að það sjónarmið hafi kannski ekki verið hávært hef ég átt samræður við hagfræðinga sem hafa talið að það væri hægt að gera það, það mundi hafa skammvinn áhrif á gengið en það mundi hins vegar leita jafnvægis fljótt aftur þannig að því sjónarmiði sé haldið til haga.

Ég tel að við ættum að ræða áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna sem væri frekar talið í mánuðum en árum. Fjögur og hálft ár fram í tímann þegar gjaldeyrishöftin hafa þegar verið við lýði í tvö og hálft ár finnst mér allt of langur tími. (Forseti hringir.) Eins og ég rakti í ræðu minni hafa fyrirheit hingað til um að afnema höftin fyrr ekki gengið eftir.