139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er mjög ánægjulegt að búið skuli vera að draga gluggatjöldin frá vegna þess að hv. formaður efnahags- og skattanefndar var svo svartsýnn og dapur áðan að mér þótti ekki við hæfi annað en að reyna að varpa ljósi í huga hans.

Hvað er eiginlega slæmt við að hafa gjaldeyrishöft? Eitt af því versta við þau er það að þau venjast, maður aðlagar sig höftunum. (Gripið fram í: Það er vont og venst.) Það er vont en það venst. Og eftir smátíma hætta menn að sjá eitthvað skrýtið við þau og segja jafnvel að þau séu orðin ómissandi og óbreytanleg, eins og hv. formaður efnahags- og skattanefndar sagði áðan: Það er eiginlega ekki hægt að breyta þessu.

Það er annað sem gerist; þau versna. Það er einkenni á gjaldeyrishöftum. Þau byrja með einhverju litlu, síðan kemur snillingurinn, borgarinn, og finnur smugur. Hann finnur stórar smugur í tölum sem við, venjulegir borgarar, getum ekki hugsað okkur, það eru svo mörg núll. Til þess að koma í veg fyrir smugurnar eru settar nýjar og stífari reglur. Borgarinn finnur aftur aðrar smugur og enn eru settar stífari reglur (BJJ: Og eftirlit.) — og eftirlit og enn stífari reglur og enn stífara eftirlit með því. Svona versnar þetta og versnar, það er eðli gjaldeyrishafta.

Síðan gerist það að höftin viðhalda sjálfum sér, það er ákveðin sjálfvirkni í því að viðhalda sjálfum sér. Einstaklingar og fyrirtæki eru búin að aðlagast þessu — fólk er yfirleitt dálítið íhaldssamt, þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn svona mikið fylgi — (Gripið fram í.) þannig að menn vilja ekki vera að breyta því sem þeir búnir að vinna við í tvö ár og vilja hafa það óbreytt. Það er ákveðin íhaldssemi, hversdagurinn þarf að líða áfram og menn eru vanari að hafa þetta svona og allar breytingar kosta orku. Þess vegna gerist það að bæði einstaklingar og fyrirtæki reyna að viðhalda kerfinu þó að þau tapi á því, það er svo merkilegt. En það gerist meira, menn aðlagast kerfinu og það myndast ákveðið siðleysi í kerfinu, sem ég ætla að koma inn á á eftir, frú forseti, ef mér gefst tími til og segja nokkrar sögur frá því að ég var ungur drengur. Það er mjög langt síðan, því miður.

Menn finna alls konar smugur, þeir reyna að svindla svona pínulítið, þeir hafa ekki skilning á þessu: Af hverju má ég ekki eiga gjaldeyri? Menn reyna að finna alls konar smugur og það sem er kannski verst í því er að hér eru túristar, ferðamenn, sem eru jafnvel með tíudollaraseðla og evrur líka. Þeir kaupa þetta og hitt og þá vil ég gjarnan selja þeim þetta og hitt. Þá eignast ég allt í einu gjaldeyri, það er bara þannig. Ég geri ekki ráð fyrir að Seðlabankinn sé með stækkunarglerið og skoði og þess vegna sanka ég að mér gjaldeyri, það er ákveðið siðleysi. Svo búa höftin til nýja hagsmuni. Fyrirtæki fara að aðlagast höftunum og þau fara að skapa verðmæti úr höftunum.

Gott dæmi um það er þegar Seðlabankinn gat gert einhvern samning við einhvern banka í útlöndum og fékk allt í einu 15 milljarða hagnað sem bjargaði síðan fjárlögunum, það munaði um þá tölu. Sem sagt, það verða til hagsmunir, menn græða á þessu ljóst og leynt, löglega og ólöglega. Margir hafa það ágætt, það er ágætt að hafa skömmtun og gjaldeyrishöft, þá minnkar samkeppnin. Það þurfa margir að gæta hagsmuna sinna í atvinnulífinu, þeir vilja viðhalda gjaldeyrishöftunum og berjast með oddi og egg gegn öllum breytingum.

Það er einhver sem situr núna alveg límdur við sjónvarpsskjáinn og hugsar: Í guðanna bænum, ég ætla að vona að þessi stjórnarandstaða nái nú ekki að stoppa þetta. Ég vil halda þessu áfram helst í 15 eða 20, 30 ár, þegar fyrirtækið mitt er komið yfir þetta. Ég kem inn á það á eftir þegar ég fer að segja smásögurnar, frú forseti. Ég er að byggja upp ákveðnar væntingar (BJJ: Vá, spennandi.) Það er mjög spennandi.

Svo hefta höftin að sjálfsögðu viðskipti. Útlendingar fara náttúrlega ekki að fjárfesta í landi sem ekki hefur meiri trú á gjaldmiðlinum sínum en svo að það þurfi að setja höft á gjaldmiðilinn. Þeir óttast að þó að það sé heimild til þess að flytja aftur út með alls konar kvöðum og skriffinnsku verði hægt að loka því hvenær sem er. Þeir taka bara ekki sénsinn á því að fara að fjárfesta í þessu landi.

Íslendingar geta heldur ekki fjárfest erlendis því að það kostar gjaldeyri og þá verður Seðlabankinn að vera mjög nákvæmur, t.d. geta lífeyrissjóðir ekki fjárfest erlendis. Þetta er óskapleg bremsa á frjálsræði fjármagns og gerir það að verkum að öll arðsemi hverfur úr kerfinu. Það hefur verið mjög lítið um fjárfestingar frá útlöndum og líka innan lands. Auðvitað eru margir þættir í því en að hluta til er það út af gjaldeyrishöftunum. Íslendingar þora ekki að binda peningana á Íslandi ef það skyldi nú opnast smásmuga til að koma peningunum út, og þær opnast alltaf öðru hverju. Menn geta t.d. keypt sér bát og siglt honum til Frakklands og selt hann. Hvað gera menn í því? Segjum að einhver Ítali ætli að koma með 20 ferðamenn sem borga fyrir ferðina á Ítalíu í evrum. Síðan kemur vinurinn með hópinn til Íslands og pantar hótel, það er matur þarna og borðað í sjoppunni og einhver Íslendingur borgar allt fyrir þá; á hótelinu, staðgreiðir með krónum og staðgreiðir í sjoppunni og hvar sem er. Alls staðar kemur Íslendingurinn og staðgreiðir með krónum af því að hann fær nefnilega gjaldeyri til Ítalíu. Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir það? Hver á að kveða upp úr þar? Hvar er eftirlitið? Það eru margar slíkar smugur sem myndast þarna þar sem menn geta unnið úr þessu. Það skapar siðleysi og er hreinlega lögbrot. Engir, hvorki Íslendingar né útlendingar, vilja fjárfesta. Þeir eru hræddir við að þeir komi ekki peningunum sínum út o.s.frv.

Að hér sé verið að lögbinda gjaldeyrishöft er, eins og margir hv. þingmenn hafa komið inn á, ákveðið merki til okkar sjálfra, til útlendinga og allra, um að við ætlum að gefast upp, um að við getum ekki stoppað þetta, að við ætlum bara að gefast upp, að ástandið verði svona áfram. Það sem gerist eftir lögbindinguna, sem er sterkari en þær reglur sem verið hafa í gildi hingað til, er að nú getur Seðlabankinn vísað í lög og menn geta farið að slaka á, slappa af og farið í sumarleyfi og svona, þeir þurfa ekkert að garfa í þessum gjaldeyrishöftum eða reyna að afnema þau. Þau verða áfram í fjögur, fimm ár og menn ætla einhvern tíma með tímanum að gera eitthvað í málunum en auðvitað gera menn ekki neitt. Það er mannlegt eðli. Það brýtur náttúrlega allar reglur EES um frjálst flæði fjármagns og því um líkt en menn treysta á að ákveðin neyðarstaða gefi okkur heimild til þess. (BJJ: Ekki endalaust) Það er nefnilega spurningin hversu mikla þolinmæði EES og ESA hafa. Lögbindingin mun því að mínu mati lengja þann tíma.

Nú ætla ég, frú forseti, að fara að segja sögur. Ég ætla að byrja á að segja frá því þegar ég byrjaði að vinna hjá útvarpinu, Ríkisútvarpi allra landsmanna, 11 eða 12 ára gamall sem sendill. Það var hérna handan við torgið uppi á efstu hæðinni í landssímahúsinu, þar var Ríkisútvarpið á einni hæð, þá lítið og nett. Útvarpsstjórinn átti skrifstofu og fréttamennirnir voru með pínulitla kytru.

Ég fór þrisvar á dag upp á Skólavörðustíg með fjöldann allan af eyðublöðum, mig minnir að þau hafi verið fimmriti ef ekki í sexriti. Á þau var vélritað og kalkipappír á milli. Ég fór upp á Skólavörðustíg, og hvað var ég að gera þar? Ég var að sækja um gjaldeyrisleyfi fyrir einstökum hljómplötum. Þar var alltaf mjög löng biðröð og afskaplega skemmtilegt því að menn töluðust við og hittust þarna á hverjum morgni, það var huggulegt. Áður en langt um leið var ég kominn í þann hóp og rabbaði við fólk um gjaldeyrishöftin og allt milli himins og jarðar. Það var sem sagt hlutverk mitt sem sendils að ná í gjaldeyrisleyfi fyrir einstakar hljómplötur.

Ég man eftir því þegar frændi minn, sem þá var þingmaður, byggði hús á Hofsvallagötu. Hann þurfti að sækja um gjaldeyrisleyfi fyrir einum pakka af nöglum. Þannig gekk það nú fyrir sig. Það var nóg að gera uppi á Skólavörðustíg og langar biðraðir og alltaf dálítið huggulegt, reyndar ekki kaffi.

Fleiri sögur. Ég man að það var aldrei brotist svo inn í hús í Reykjavík, og það voru innbrot þá eins og núna, að ekki væri stolið gjaldeyri. Það kom í fréttunum að 180 þýskum mörkum eða 60 þúsund dollurum hefði verið stolið. Það var alltaf stolið helling af erlendum peningum þegar brotist var inn. Auðvitað áttu menn ekki að segja frá því því að þetta voru svik, menn voru búnir að sanka að sér gjaldeyri og geymdu hann heima hjá sér undir koddanum. Það var heilmikill gjaldeyrir geymdur undir koddanum, það var ekki brotist inn í öll hús. (Gripið fram í: Menn hættu að brjótast inn því að …) Ja, það skyldi nú ekki vera að hvatinn hafi verið gjaldeyrir, ég held reyndar ekki. Það getur annars vel verið.

Síðan þegar ég fluttist til landsins að loknu námi árið 1973 keypti ég allt tilbúið úti; ísskáp, þvottavél og þurrkara og allt heila gúmmulaðið. Ég keypti það í gegnum heildsala á Íslandi sem skaffaði mér það tiltölulega ódýrt, ég þurfti þá ekki að borga virðisaukaskatt í Þýskalandi o.s.frv. Það var mjög hagstætt nema vegna einhverra mistaka fékk ég tvo reikninga og annar var tvöfalt hærri en hinn. Sá sem var tvöfalt hærri hafði verið ætlaður fyrir gjaldeyrisyfirvöld á Íslandi þannig að menn fengu tvöfalt hærri gjaldeyri afgreiddan en þeir þurftu en borguðu svo bara lægri reikninginn. Mismunurinn fór inn á reikning í Sviss. (BJJ: Siðleysi.) Siðleysi og lögbrot, já vissulega.

Svo einhvern tíma þegar ég hóf nám fór ég til útlanda, til Þýskalands. Við námsmennirnir fengum 650 mörk sem yfirfærslu, það var ágætt. Einstaka námsmenn í Þýskalandi bjuggu þó í einbýlishúsum og keyrðu um á Mercedes Benz þó að yfirfærslan væri bara 650 mörk. Maður fór að furða sig á því hvernig stóð á því. Þeir fengu náttúrlega innstæðurnar í Sviss sem pabbarnir áttu. Það var sem sagt mjög margt sem gerðist.

Svo ætlaði einn þýskur vinur minn að gifta sig. (Gripið fram í.) Já, og ég ákvað að gefa honum gjöf sem kostaði 300 mörk. Ég sótti um … (Gripið fram í.) — Þetta var mjög góður vinur minn. Ég sótti um yfirfærslu fyrir 300 mörkum og viti menn, ég fékk nei, (Gripið fram í: Ég trúi því, það verður að …) þannig að ég gat ekki gefið honum neina gjöf. Þegar maður þurfti að borga leigu fyrir herbergi og síðan mat og annað slíkt var ekki neitt afgangs af 650 marka yfirfærslu til að kaupa brúðkaupsgjöf fyrir 300 mörk þannig að það varð niðurstaðan.

Það er margt mjög hlægilegt í þessu, en þetta er ekki fyndið. Kannski er ástæða til þess að hafa gjaldeyrishöftin til að … [Þingmaður skellir upp úr.] (Gripið fram í.) Já.

Svo man ég eftir því þegar það átti að afnema gjöldin. Bankarnir héldu heilmikla ráðstefnu, það var voða mikið mál og þeir ákváðu að afnema gjöldin á níu mánuðum. Á sama tíma var ég að þvælast í Hong Kong. Ég var nýlentur og þá kemur einhver skóburstari og tjáir mér að skórnir mínir séu ekki nógu fínir og ég ákvað að biðja hann um bursta skóna mína nema að ég átti ekki Hong Kong-dollara. Skóburstarinn hélt ekki að það yrði neitt vandamál, hann skipti bara peningnum. Þessa sögu sagði ég bönkunum á Íslandi, að í Hong Kong væri náungi sem gæti skipt bandarískum dollurum yfir í Hong Kong-dollara eins og ekkert væri. Hann bara náði í auglýsingu í blaðinu og sýndi mér að Hong Kong-dollarinn væru svona margir bandarískir dollarar og svo skipti hann bara, ekki málið. Íslensku bankarnir voru sem sagt í níu mánuði að reyna að uppgötva þessi vísindi.

Það sem gerist nefnilega er að þegar komin eru höft er svo óskaplega erfitt að afnema þau, eins og við sjáum núna. Það virðist vera óvinnandi vegur. Ég vil spyrja á síðustu mínútunum mínum: Hvers vegna tókum við upp höft og af hverju höfum við þau? Það er vegna þess að menn eru hræddir. Það er snjóhengja einhvers staðar sem heitir jöklabréf og eru talin vera upp á einhver hundruð milljarða, svo er geysimikið af íslenskum krónum sem treysta ekki núverandi hæstv. ríkisstjórn og langar til að fara til útlanda. Íslendingar sem eiga íslenskar krónur eru logandi hræddir við þessa ríkisstjórn og alla hennar skattáþján, neikvæða ávöxtun, skatta á neikvæða vexti o.s.frv. Ríkisstjórnin óttast þessa sparifjáreigendur af því að hún hefur ekkert gert fyrir þá og hún óttast jöklabréfaeigendur af því að hún hefur ekki talað við þá.

Nú vill svo til að jöklabréfaeigendurnir eiga fulltrúa sem sennilega eru ekki nema svona 10 eða 20, ég hugsa að þeir séu ekki mikið fleiri. Ég skil ekki af hverju maður sest ekki bara niður með þessu fólki, býður því í kaffi og segir: Hvernig leysum við þetta vandamál? Þeir hafa líka hag af því að eitthvað gerist einhvern tíma og þeir geta náð í peningana sína, þessar eignir sínar og flutt þær til Ítalíu, Frakklands eða Þýskalands eða hvert sem er.

Ég tel að það eigi í fyrsta lagi að spjalla við þessa jöklabréfaeigendur, bara bjóða þeim í kaffi og segja: Hvernig viljið þið hafa þetta, elskurnar? Sjáið þið einhverja lausn á þessu? Og svo eiga menn að setjast niður með fólki sem kann leikjafræði. (Gripið fram í.) Leikjafræði gengur út á það að menn búi til stöðu þar sem þeir vita ekki nákvæmlega hvað gerist næst. Til dæmis getur skattaleið hv. þm. Lilju Mósesdóttur verið mjög snjöll. Við byrjum með 80% skatt og þá vill að sjálfsögðu enginn skipta. Svo lækkum við skattinn niður í 60%. Þá vill kannski einn og einn skipta sem er logandi hræddur af því að óttinn er dýr. Síðan lækkum við það niður í 50%, í 40% og svo í 30% í skrefum og höfum ákveðið magn í hvert skipti. Þá er spurningin: Ef ég á hræddar krónur, ef ég er Frakki eða einhver annar, hvenær ætti ég að skipta þeim? Og ef ég er Íslendingur sem á pund erlendis og langar til að koma til Íslands og kaupa íbúðina sem amma eða einhver átti — Íslendingur sem hefur búið í mörg ár í útlöndum reynir náttúrlega að koma strax heim. Þetta er ákveðin leikjafræði og hana eigum við að nota okkur. Við eigum að nota okkur að búa til stöðu þar sem menn reyna að komast inn í leikinn en vita ekki nákvæmlega hvenær best er að koma inn. Þeir hræddustu verða fyrstir og selja á ofurháu gengi.

Reyndar var útboð Seðlabankans í dag mjög athyglisvert, þar seldist krónan á 30% yfir gengi Seðlabankans, ekki meira. Ég átti von á 40–50%. En það voru ekki nema 32% og ég geri ráð fyrir því að það muni detta út og nálgast gengið mjög fljótlega. Ég lagði það reyndar til árið 2008 en þá gaf víst AGS merki um að þeir leyfðu ekki tvöfalt gengi, sem ég tel vera mjög misráðið.

Það sem við þurfum að gera núna, frú forseti, til þess að vera dálítið uppbyggileg og hugsum í lausnum er að finna lausnir. Lausnin getur verið fólgin í mismunandi skattlagningu, lækkandi. Lausnin getur verið fólgin í tvöföldu gengi sem Seðlabankinn er að byrja með. Lausnin gæti verið fólgin í því að ríkissjóður gefi út skuldabréf í erlendri mynt með mjög lágum vöxtum til mjög langs tíma, sem kaupa mætti fyrir krónur á gengi dagsins. Þá flytjum við gengisvandann yfir í tvöfalt gengi á þessu skuldabréfi.

Svona getum við hugsað út margar skemmtilegar lausnir og ég legg til, af því að hv. formaður efnahags- og skattanefndar situr hér, að við í nefndinni förum í „brain storming“ eða hugarefli og reynum að finna góða lausn á þessu vandamáli og að við tökum smávegis úr þeirri snjóhengju sem hangir uppi í fjalli, smátt og smátt, og molum hana að innan og svo er allt í einu vandinn búinn. Ég reikna með að það taki þrjá mánuði.