139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Allar ákvarðanir hafa óvissu í för með sér og margir eru ákvarðanafælnir, þeir eru bara hreinlega hræddir. Það á við í daglegu lífi og í opinberu lífi og það á eins við um ákvarðanir sem menn taka við ríkisstjórnarborðið eða hvar það er. Sumt fólk reynir alltaf að horfa á dökku hliðarnar af því að það býr sig undir það versta. Það horfir sjaldan á jákvæðu hliðarnar af því að menn þurfa ekki að varast þær.

Ég hugsa að þegar gjaldeyrishöftunum verði aflétt muni það gerast að Íslendingar sem eru í útlöndum og vilja gjarnan fjárfesta hérna og ferðamenn sem hafa komið hingað, vilji gjarnan kaupa íbúð í Reykjavík eða einhvers staðar úti á landi fyrir slikk ef gengið fer mikið niður. Það mun þýða gjaldeyrisinnstreymi á móti útstreyminu. Þeir sem eru að fara út vilja heldur ekki selja krónurnar sínar fyrir hvað sem er.