139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög leiðinlegt að verða vitni að svona skotgrafahernaði þar sem menn eru bara með skæting. Ég hef alltaf reynt að vinna með öllum að lausnum, í félagsmálanefnd sérstaklega, og við í efnahags- og skattanefnd höfum líka unnið þannig að menn finni lausnir.

Mér var sagt að gjaldeyrishöftin ættu að standa í þrjá mánuði, fram í febrúar, mars 2009. Þá urðu stjórnarskipti, annar flokkurinn, Samfylkingin, tók þátt í þeirri byltingu sem þá var hérna fyrir utan og fór með Vinstri grænum í ríkisstjórn og allt í einu var þetta orðið pikkfast. En það er ekki sama, lögbinding og reglur. Núna er verið að lögbinda þetta, setja nákvæmar reglur í lög og heimildir og annað slíkt þannig að þetta er miklu verra. Þetta hefur þróast nákvæmlega eins og ég lýsti að hefði gerst í gamla daga og það ætti virkilega að hreyfa við mönnum sem ekki vilja sjá gjaldeyrishöft.