139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má vera að í ræðu minni hafi ég ekki undirstrikað það nægilega vel hve mikill skaði getur verið af siðrofi. Ég nefndi reyndar nokkrar smásögur sem gengu allar meira og minna út á spillingu. Brandarinn fólst í þeirri grímulausu spillingu sem fólst í þáverandi kerfi. Ég get nefnt fleira. Það var margfalt gengi, það var ferðamannagjaldeyrir, það var innflutningsgjaldeyrir, það var smábátagjaldeyrir o.s.frv. og gjaldeyririnn sigldi náttúrlega þvers og kruss á milli í spillingu.

Svona kerfi býr til spillingu og siðrof. Það er hverri þjóð mjög dýrt. Ég hef reyndar fjallað í erindi um verðmæti heiðarleika fyrir einstaklinga, fyrirtæki og þjóðfélög. Heilu þjóðfélögin geta liðið fyrir það í áratugi ef spilling er í landinu, ég nefni lönd eins og Rússland og önnur slík. (Forseti hringir.) Það getur verið mjög dýrt fyrir þjóðfélög.