139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Raungengi íslensku krónunnar er í botni, ég tel því mjög ólíklegt að það lækki mikið meira. Það væri mjög óeðlilegt. Þá yrðu eignir, skuldir og laun á Íslandi orðin með þeim lægstu í Evrópu, eru reyndar nú þegar orðin mjög lág. Ég held að þessi dökka mynd um verðbólguskot og gengisfall krónunnar sé ekki endilega líkleg. Ég tel nefnilega meiri líkur á því að krónan mundi styrkjast eftir afnám haftanna. Það hefur oft sýnt sig þegar menn setja höft á eitthvað að þá hækkar verðmæti þess sem menn ætla að reyna að halda niðri. Við skulum ekki vera allt of upptekin af þessu, enda þurfa þær leiðir sem ég hef verið að benda á að vera svo snjallar að þetta sé leikjafræði, menn vinni fram og til baka, alltaf að bregðast við viðbrögðum hins aðilans, sem er snjóhengjan, og þannig nái menn að tempra þessi viðbrögð.