139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um að innleiða á Íslandi ströngustu gjaldeyrishöft sem sést hafa í vestanverðri Evrópu frá því að austur-þýska alþýðulýðveldið leið undir lok árið 1989. Ég náði að ferðast til Austur-Þýskalands á meðan það ríki var og hét og það var mjög eftirminnileg reynsla að fara í gegnum Berlínarmúrinn. Strax og maður kom þar í gegn blasti við að samfélagið var allt, allt öðruvísi handan við múrinn. Það blasti við í byggingunum, þær voru nánast hvergi hirtar og voru að molna niður. Mjög víða mátti enn sjá kúlna- og sprengjugöt á byggingum eftir seinni heimsstyrjöldina vegna þess að menn höfðu ekki efni á að gera við þær, höfðu ekki nauðsynleg hráefni og fjármagn til að ráðast í aðkallandi viðgerðir á húsnæði. Það sem var þó mest áberandi var að allir virtust vera frekar daprir. Það var munur á fólkinu austan og vestan við múrinn. Austan megin virkuðu allir niðurdregnir og ýmsar ástæður voru fyrir því.

Annað sem vakti þó sérstaka athygli mína þegar farið var þarna yfir voru þær reglur sem giltu um erlendan gjaldeyri og gjaldmiðil Austur-Þýskalands. Það mátti nefnilega ekki taka með sér gjaldmiðil landsins, austur-þýsk mörk, inn í Austur-Þýskaland. Ekki mátti taka gjaldmiðil landsins inn í viðkomandi land. (Gripið fram í: Það hljómar furðulega.) Hvernig stendur á því? Þetta hljómar náttúrlega mjög undarlega en því miður kunnuglega því að nú höfum við á Íslandi innleitt nákvæmlega sams konar reglur. Það má ekki kaupa íslenskar krónur erlendis, þær eru óhreinar krónur. Hver er ástæðan fyrir því? Jú, hún er sú að ódýrara er að kaupa krónurnar erlendis rétt eins og ódýrara var að kaupa austur-þýsku mörkin í Vestur-Þýskalandi og á tíma munaði tífalt, það var tífalt ódýrara að kaupa þau vestan megin en austan. Auðvitað var ekkert að marka gengið austan megin en menn töldu þetta nauðsynlegt, þannig var það rökstutt, það væri illnauðsynlegt til að halda ríkinu gangandi vegna þess að svo mikill skortur væri á gjaldeyri.

Þarna voru landamæraverðir sem máttu leita á fólki, kanna hvort það væri að fela peninga innan á sér. Og nú er verið, skilst mér, að taka það fyrirkomulag upp á Íslandi líka. Svo þarf nú ekkert að fara út í það að ef einhver Austur-Þjóðverji fékk að ferðast vestur fyrir og vildi skipta dálítilli upphæð, sem hann þurfti náttúrlega að sækja sérstaklega um leyfi fyrir, gat sá hinn sami lent í því að rannsakað væri hvernig hann hefði efni á að kaupa þá peninga. Og nú er meira að segja verið að innleiða þetta á Íslandi líka. Íslenska ríkisstjórnin virðist vera að klára það núna að innleiða gjaldeyrishöft að austur-þýskri fyrirmynd í heild sinni.

Hver varð árangurinn af þeim höftum sem stóðu áratugum saman? Hann var ekki góður, ástandið versnaði bara og versnaði. Í fyrsta lagi þurfti, eins og rakið hefur verið hér á undan, stöðugt að stoppa í götin af því að menn vildu auðvitað finna leiðir fram hjá þessu, svo stöðugt var verið að herða eftirlitið. En það dugði ekki til. Gjaldeyrishöftin sem slík dugðu ekki til vegna þess að þau eyðilögðu möguleika ríkisins á að taka þátt í alþjóðaviðskiptum og þar með að skapa þann gjaldeyri sem það þurfti til að taka þátt í þeim viðskiptum. Þetta var nokkurs konar sjálfhelda, sams konar sjálfhelda og verið er að setja Ísland í núna.

Svo alvarleg var staða þessara mála í Austur-Þýskalandi að á árunum 1976–1979 reið þar yfir kaffikrísan svokallaða. Austur-Þjóðverjar drekka gríðarlega mikið kaffi, þeir eru líkir Íslendingum að því leytinu til, þeim þykir kaffi gott og það er hefð í Austur-Þýskalandi að þegar menn hittast og setjast niður til að spjalla fá menn sér kaffi. Árið 1976 varð uppskerubrestur í Brasilíu. Það hafði viðrað óheppilega svo að kaffiuppskeran hrundi. Kaffiverð á heimsmarkaði snarhækkaði. Allt í einu stóðu austur-þýsk stjórnvöld frammi fyrir því að þurfa fjórfalt meiri gjaldeyri til að flytja inn það kaffi sem hinir kaffiþyrstu Austur-Þjóðverjar voru vanir að drekka. Og þó að kaffiinnkaupin væru ekki stór hluti af ríkisútgjöldum var svigrúmið ekkert. Þegar þessi töluverða hækkun en smávægilegi hluti af útgjöldum ríkisins varð, þ.e. hækkun á kaffiverði, skapaði það þriggja ára efnahagskrísu í landinu.

Menn byrjuðu á að bregðast við með því að takmarka kaffineyslu, banna veitingastöðum að selja kaffi og á opinberum vinnustöðum mátti ekki lengur drekka kaffi. — Það hefði komið sér illa t.d. á þessum opinbera vinnustað ef okkur væri bannað að drekka kaffi, ég tala nú ekki um þegar menn eru látnir tala langt fram á nætur hvað eftir annað. — En það dugði ekki til. Þá var farið að blanda kaffið og búa til nýtt fyrirbæri sem kallað var misch-kaffi þar sem 51% var raunverulegt kaffi, meiri hluti reyndar, þeir pössuðu sig á því að meiri hlutinn væri kaffi, en 49% var uppfyllingarefni, alls konar korn, sykurreyr og drasl. Það þótti alveg afspyrnuvont og Austur-Þjóðverjar voru skapillir venju fremur í þrjú ár vegna þessa. Þetta var rökstutt með því að það væri ekki um annað ræða, þjóðin væri í krísu og allir þyrftu að leggja sitt af mörkum og þótt gjaldeyrishöftin væru ekki skemmtileg þyrfti að viðhalda þeim.

Svo var komið á sérstökum verslunum með alvörukaffi og ýmsar vestrænar vörur. En almenningur gat ekki verslað í þeim búðum vegna þess að borga þurfti í annarri mynt en mynt landsins. Þetta er eiginlega það eina sem vantar upp á í kerfi núverandi ríkisstjórnar á Íslandi en það kemur eflaust miðað við hvað þau hafa verið fljót að innleiða austur-þýska kerfið. Það tók töluvert mörg ár fyrir Austur-Þjóðverja að taka upp þessar litlu gjaldeyrisverslanir. Þá máttu erlendir ferðamenn versla þar, menn vildu náttúrlega ná gjaldeyri af þeim, en einnig gátu þeir sem áttu sérstakar ávísanir, austur-þýskar ávísanir sem giltu í slíkum verslunum, farið í þær búðir.

Hverjir áttu þær ávísanir? Það voru náttúrlega bara þeir sem tilheyrðu flokknum sem myndaður var af sósíalistum og sósíaldemókrötum, einingarflokkur Austur-Þýskalands. Einungis þeir sem voru í náðinni hjá þeim flokki og embættismenn og stjórnmálamenn komust yfir þær ávísanir. Eins og nærri má geta leiddi þetta til gríðarlegrar spillingar og varð ekki til þess að leysa efnahagsvanda landsins. En þeir reyndu að halda í horfinu og reyndu að auka útflutning til að geta afnumið gjaldeyrishöftin einn daginn.

Þá komum við aftur að þeirri sjálfheldu sem ríkisstjórnin er núna að koma Íslandi í. Austur-Þjóðverjar voru metnaðarfullir. Austur-þýskir stjórnmálamenn héldu hvað eftir annað ræður eins og við fáum oft að heyra frá hæstv. ráðherrum, ekki hvað síst hæstv. iðnaðarráðherra, sem kemur aftur og aftur og talar um að hér eigi að fara að byggja upp mikinn iðnað og nýsköpun, sérstaklega í tækni- og þróunargreinum. Þetta varð að meginmarkmiði hjá þeim stjórnvöldum, hljómaði auðvitað vel. Austur-Þjóðverjar ætluðu að verða hátækniþjóð, byggja upp hátækniiðnað en gera það með gjaldeyrishöftum.

Austur-Þjóðverjar tóku upp á því nokkrum árum áður en ríkið féll að fara að keppa við Vesturlönd í tölvugeiranum og sérstaklega í framleiðslu á örflögum. Þeir fóru að keppa við fyrirtæki í Japan og Kaliforníu og víðar í að framleiða örflögur. En vandinn við það að ætla að flytja út meira af hátæknivörum, þróa í raun iðnframleiðslu í landinu, var sá að það kostaði svo mikinn gjaldeyri að byggja upp slíka starfsemi. Þeir lögðu því í gríðarlega fjárfestingu en af því að þeir höfðu svo lítinn aðgang að gjaldeyri varð þessi fjárfesting — og þessar örflögur voru auðvitað ekki samkeppnishæfar við þær japönsku og bandarísku — til þess að grafa þá enn dýpra í vanda.

Þetta sjáum við gerast á Íslandi núna. Við erum með stjórnvöld sem stýra í gegnum orðræðu, ef svo má segja, notast við fögur fyrirheit í bland við ógnina, hina illu kapítalista sem Austur-Þjóðverjar kölluðu alltaf fasista, það voru í rauninni allir fasistar sem ekki voru hlynntir ógnarstjórn sósíalista og kommúnista. Það var sem sagt blanda af hræðsluáróðri, þessar grýlur. Útgerðin var reyndar ekki mjög stór í Austur-Þýskalandi en hún var dálítil, og eflaust hafa þeir áður en þeir þjóðnýttu útgerðarfyrirtækin talað mjög illa um þá sem áttu þau fyrirtæki.

Á hinn bóginn töluðu þeir um möguleika landsins á að verða hátækniland. En fjárfestingin í þeim greinum varð í rauninni það sem setti þá endanlega í þrot og eftir að stjórn kommúnista féll kom í ljós að á árinu 1989, rétt áður en múrinn féll, hafði verið skilað háleynilegri skýrslu um það að ríkið mundi komast í þrot árið 1991. Þá gætu þeir ekki lengur útvegað þann gjaldeyri sem þyrfti til þess að standa straum af afborgunum til útlanda, standa straum af lántökunum sem þeir höfðu þurft að ráðast í til að flytja inn nauðsynlegar vörur. Gjaldeyrishöftin í áratugi sem stöðugt var reynt að bæta — ég gleymdi að nefna að skylda var að skila afgangsgjaldeyri, eins fráleitt og það kann að hljóma. Þegar íþróttamenn eða einhverjir fóru út að keppa fengu þeir að kaupa dálítið af gjaldeyri og ef þeir eyddu honum ekki öllum í mat eða brennivín í útlöndum þurftu þeir að skila afganginum. (Gripið fram í: Við könnumst við það.) Við könnumst við það líka já, því miður.

Þeir reiknuðu það út sjálfir árið 1989 að 1991 kæmust þeir í þrot. Áratugir af gjaldeyrishöftum, það að hafa notað öll hugsanleg brögð til að komast yfir gjaldeyri, jafnvel frá íþróttamönnum sem voru með klink í vasanum að koma heim úr keppnisferð, dugði ekki til. Þvert á móti gróf það landið í sífellt dýpri og dýpri holu sem á endanum varð ómögulegt að komast upp úr og felldi ríkið.

Því miður sjáum við svo margt af þessu vera að gerast á Íslandi núna. Það átti að notast við gjaldeyrishöft sem bráðabirgðaneyðarúrræði. En svo eru menn farnir annars vegar að venjast því og hins vegar sjá þeir að þetta virkar ekki og hver eru viðbrögðin þá? Ekki að snúa við og hætta við þessa nálgun heldur þvert á móti að reyna stöðugt að herða reglurnar og finna gjaldeyri í öllum skúmaskotum, nákvæmlega eins og Austur-Þjóðverjar gerðu með engum árangri.

Það hefur verið rakið hér ágætlega, það hafa ýmsir gert, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, hv. þm. Lilja Mósesdóttir og margir fleiri hafa rakið þær leiðir sem hægt er að notast við til að vinna okkur út úr höftunum. Menn hafa rifjað það upp að þær leiðir sem ríkisstjórnin ætlar loksins að setja af stað núna eru samkvæmt tillögum sem lágu fyrir fyrir rúmum tveimur árum en voru ekki notaðar þá þannig að tvö ár fóru til spillis. Ég ætla ekki að verja miklum tíma í að rekja þetta, það hafa aðrir þingmenn gert ágætlega og sýnt fram á að ýmsar leiðir eru til til þess að létta af gjaldeyrishöftunum og menn þurfa ekki að vera svona uppfullir af ótta eins og ríkisstjórnin virðist vera í þessu efni.

Auðvitað er það enginn valkostur að halda áfram með þessum hætti. Hver fjárfestir í landi þar sem svona reglur eru í gildi? Svo er sagt: Já, menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því vegna þess að nýir fjárfestar geta tekið peningana sína út aftur. Þá verða peningarnir merktir sérstaklega, þeir peningar sem komu nýir inn eftir að gjaldeyrishöftin voru sett. Hver ætli trúi því? Hver ætli treysti á það, í landi sem er með jafnfráleitar reglur og jafnmikla óstjórn og Ísland undir þessari ríkisstjórn, að ríkisstjórnin taki ekki upp á því að skella inn enn einu frumvarpinu um gjaldeyrishöft og segi: (Gripið fram í.) Já, nú erum við hættir. Þeir sem eru búnir að leggja inn peninga núna eru að vísu fastir en þeir sem koma næstir verða það ekki.

Það er ekki hægt að plata fólk endalaust, það er ekki valkostur. Vilji menn fá fjármagn inn í landið er ekki valkostur að viðhalda gjaldeyrishöftum, það fer ekki saman. Svo var nú svo kostulegt, það var svo furðulegt að hlusta á, sérstaklega fulltrúa Samfylkingarinnar og reyndar Vinstri grænna líka, flesta, tala um Icesave sem ástæðu þess að hér kæmi engin fjárfesting inn í landið. Ríkisstjórn sem er með algjörlega galna skattastefnu undir kjörorðinu „You ain´t seen nothing yet“ í skattahækkunum og viðheldur ströngustu gjaldeyrishöftum sem sést hafa í vestanverðri Evrópu frá því að austur-þýska alþýðulýðveldið leið undir lok, skilur svo ekkert í því að fjárfesting streymi ekki inn, það hljóti að vera út af embættismannadeilu vegna Icesave. Það er náttúrlega ekki boðlegur málflutningur.

Svo bætist annað við núna. Við höfum séð bætast við ný rök í málflutningi fulltrúa Samfylkingarinnar í dag. Þeir óttast að ef gjaldeyrishöftin verða afnumin án þess að við göngum í Evrópusambandið og tökum upp evru getum við aftur lent í því að hingað streymi inn of mikið fjármagn, að vaxtamunur leiði til þess að svo mikill áhugi verði á því að fjárfesta á Íslandi að hingað streymi inn fjármagn og myndi nýja efnahagsbólu, (Gripið fram í: Við drukknum í …) við hreinlega drukknum í erlendu fjármagni og þess vegna sé okkur ekki óhætt að vera með eigin gjaldmiðil.

Af því tilefni tók ég með skýrslu frá vinum ríkisstjórnarinnar í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, það er ekki allt galið sem þeir prenta þar. Skýrslan kom út í febrúar 2010 og fjallar um það hvernig menn geta brugðist við of miklu innstreymi fjármagns. Á síðu sjö er þetta sett upp í mjög einfalda skýringarmynd, frú forseti, þar er sýnt: Ef það gerist að hér byrji að streyma inn fjármagn, eru aðstæður þessar eða þessar. Ef þær eru þessar, já, þá gerum við þetta. Ef þær eru þessar, nei, þá gerum við þetta. Svona er þetta allt útlistað á einni blaðsíðu hvernig menn eigi að bregðast við ef þeir standa allt í einu frammi fyrir alveg gífurlegu innstreymi erlends fjármagns. En þetta er reyndar ekki hægt að gera nema menn séu sjálfstæðir og geti stýrt eigin peningamálastefnu. Sá böggull fylgir skammrifi að menn þurfa að vera sjálfstæðir til þess að geta stýrt málum með þessum hætti. Ég er að hugsa um að gefa hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra eintak af þessari skýrslu til að minnka aðeins kvíða hans fyrir því að hingað fari að streyma inn erlent fjármagn ef gjaldeyrishöftum verður aflétt.

Af því að ég á tvær mínútur eftir ætla ég að segja nokkur orð um þessa evruumræðu. Það er alveg ljóst, sama hvað menn ætla sér í gjaldmiðilsmálum, hvort sem það er að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, taka upp kanadadollar, sænsku krónuna, einhverja aðra mynt eða halda íslensku krónunni, hvað sem menn ætla að gera þarf að byrja á að gera sömu hlutina. Það þarf að byrja á því að renna stoðum undir íslensku krónuna og styrkja hana. Þess vegna er það ófyrirgefanlegt í raun hvernig fulltrúar Samfylkingarinnar sérstaklega og ekki hvað síst hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og meira að segja stundum seðlabankastjóri reyna vísvitandi að eyðileggja möguleika krónunnar, eigin gjaldmiðils, á því að rétta úr kútnum. Í hvert skipti sem þessir menn komast í viðtöl við erlenda fjölmiðla, sérstaklega ef það eru fjölmiðlar sem fjalla um efnahagsmál, er byrjað með ræðuna um að íslenska krónan sé ónýt og hér muni enginn vilja fjárfesta á meðan íslenska krónan er til staðar og hér verði höft um ókomna tíð á meðan sá gjaldmiðill er til staðar. Svo skilja þessir sömu menn ekkert í því að hingað streymi ekki inn nein erlend fjárfesting.

Menn verða að byrja á að meta hlutina af skynsemi og tala af skynsemi, sama hvort þeir ætla í Evrópusambandið eða ekki. Þeir verða að byrja á uppbyggingunni hér heima. Jafnvel þó að stefnan sé Evrópusambandið eða dauði — það virðist vera kjörorðið, því miður, hjá þeim ágæta stjórnmálaflokki, Samfylkingunni — þá held ég að skynsamlegra sé fyrir viðkomandi að reyna að bæta stöðuna hér vegna þess að annars er valkosturinn eingöngu efnahagslegur dauði. Ef þeir ætla að eiga möguleika á að komast inn í Evrópusambandið verða þeir að (Forseti hringir.) byrja á að styrkja stöðu landsins hér heima vegna þess að Evrópusambandið er, eins og við höfum séð að undanförnu, ekki (Forseti hringir.) hjálparsamtök fyrir gjaldþrota ríki.