139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir aldeilis ágæta ræðu. Hún var flutt á léttum nótum en um alvarlegt efni, það er oft gott að gera hversdagsleikann bærilegan með því að segja frá hlutunum á léttan hátt.

Hv. þingmaður lýsti því nákvæmlega hvað það er hættulegt þegar höft fara að virka. Þetta gerist mjög hægt, við finnum ekki svo mikið fyrir því í smátíma þó að við séum hneppt í höft en smám saman, án þess að við tökum eftir því, alveg eins og froskurinn í kalda vatninu sem er kveikt undir, dregur það okkur til dauða efnahagslega.

Hv. þingmaður lýsti ágætlega kaffikreppunni í Austur-Þýskalandi sem geisaði um miðjan áttunda áratuginn. Mig langar til að bæta örlítið við þá sögu vegna þess að þegar gjaldeyrishöftin voru hvað svæsnust á Íslandi voru Íslendingar með það sem var kallað kaffibætir og var bætt út í kaffið hérna þannig að það var boðið upp á þetta misch-kaffi á Íslandi líka.

Nú er sagt að það sé snjóhengja, 465 milljarðar. Það var uppboð sem lauk í dag og það kom í ljós að 65 milljarðar vildu út úr landinu á mismunandi verði og Seðlabankinn ætlaði að bjóða út 15 milljarða, tók 13 milljörðum í tilboðum sem þýðir það að (Forseti hringir.) meðalverðið var 13% yfir daggenginu sem þýðir að þrýstingurinn var kannski ekki næstum því jafnmikill og búið er að hræða okkur (Forseti hringir.) með, með grýlunni. Hvað vill hv. þingmaður segja um þau skilaboð sem felast í þessu uppboði?