139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[23:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algjörlega sammála þessu mati. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er m.a. sá að ríkisstjórnin ber annaðhvort ekki skynbragð á þessa þróun eða líður bara ágætlega í því fyrirkomulagi sem hún hefur komið á vegna þess að hún hugsar ekki lengur um hag almennings. Menn geta lent í svona firringu.

Það rifjast upp fyrir mér sagan af austur-þýska embættismanninum sem ók eftir vegi í sveit í norðanverðu Austur-Þýskalandi. Þar ók hann fram hjá fjölskyldu sem var í vegarkantinum að naga rætur og gras sem það var að tína upp. Hann snarstoppaði á stóru rússnesku límmósínunni sinni og sagði: Komið þið með mér! Eruð þið sveltandi? Komið þið með mér heim til mín. Þau þökkuðu vel fyrir og öll fjölskyldan hrúgaðist inn í bílinn og þegar þau lögðu af stað sögðu þau: Þakka þér kærlega fyrir, herra komissar. (Forseti hringir.) — Það er nú lítið að þakka. Grassprettan er búin að vera svo góð á búgarðinum mínum að þið hafið (Forseti hringir.) nóg að bíta þar.